Litlar sem engar líkur eru á því að Ísland taki þátt í evrópsku söngvakeppninni í ár fái Ísraelar að taka þátt í keppninni.
Þetta segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri í samtali við mbl.is.
Ríkisútvarpið staðfesti þátttöku Íslands í Eurovision í upphafi septembermánaðar með þeim fyrirvara um „fullnægjandi“ viðbrögð EBU varðandi þátttöku ísraelska ríkissjónvarpsins KAN í keppninni.
Eru það fullnægjandi viðbrögð að Ísrael fái að taka þátt?
„Það held ég ekki,“ segir Stefán aðspurður.
Má þá segja að þátttaka Ísraels í keppninni jafngildir því að Ísland taki ekki þátt í ár?
„Við höfum svarað því ítrekað í fjölmiðlum undanfarið að við teljum litlar sem engar líkur á því að við tökum þátt í Eurovision að óbreyttu ef Ísrael verður með í keppninni.“
Stjórn Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, sem skipuleggur söngvakeppnina Eurovision, hefur boðað til sérstaks fundar þar sem hvert aðildarríki mun greiða atkvæði um þátttöku Ísraels í keppninni.
Spurður hvernig atkvæði Íslands muni falla segir Stefán allar líkur á því að Ísland greiði gegn þátttöku Ísraels.
Álfan hefur logað í deilum um hvort Ísrael eigi að fá að taka þátt í keppninni í vor, í ljósi síaukinnar mannúðarkrísu á Gasasvæðinu vegna hernaðaraðgerða Ísraels.
Sjónvarpsstöðvar Spánar, Írlands og Hollands hafa á undanförnum vikum sagt að þær muni draga sig úr keppni ef Ísrael tekur þátt.
Aðstandendur Eurovision hafa lengi reynt að mála keppnina upp sem ópólitískan viðburð sem sýni að þjóðir geti lagt pólitískan ágreining til hliðar í eitt kvöld og sameinast í söng.
Oft hafa þó verið merki um að því sé raunar þveröfugt farið.