Eigendur frístundahúsa í Grímsnesi leggjast alfarið gegn áformaðri námuvinnslu í Seyðishólum, m.a. af þeim sökum að aka eigi efni brott úr námunni yfir sumarmánuðina sem valda muni stórauknum þungaflutningum um svæðið, en rauðamölin sé að verulegu leyti ætluð til útflutnings og skipað út frá Þorlákshöfn.
„Það versta við þetta er að þeir ætla að keyra efnið úr námunni yfir sumarmánuðina,“ segir Guðrún M. Njálsdóttir í samtali við Morgunblaðið, en hún er einn eigenda frístundahúss á svæðinu.
Hún segir sumarhúsabyggðina í nágrenni Seyðishóla telja á milli 300 og 400 hús og eigendur þeirra séu ekki sáttir. Núverandi námuop sé í beinni sjónlínu frá mjög mörgum lóðum. Ekki sé með malarnáminu verið að skapa atvinnu í sveitarfélaginu, enda kæmu flutningabílarnir frá Þorlákshöfn og eina atvinnan sem skapast myndi á svæðinu væri við niðurbrot á námunni og mokstur á bílana.
Eigendur frístundahúsanna benda á að Seyðishólar, sem séu gígaþyrping og hluti af Grímsneshrauni, séu á náttúruminjaskrá, eitt af helstu kennileitum í Grímsnesi og sjáist víða að. Seyðishólar draga til sín fjöldann allan af ferðafólki sem gengur á hólana til að njóta útsýnis.
Efnisvinnslunni muni fylgja mengun; rykmengun, hávaðamengun og sjónmengun. Yfirbragð landsvæðisins muni breytast og verða allt annað umhverfi en það sem fólk sem fjárfest hafi í frístundahúsi sé að sækjast eftir.
Guðrún bendir á að þegar sé mikil bílaumferð um Biskupstungnabrautina og ekki sé á þá umferð bætandi, síst með daglegum ferðum tuga stórra malarflutningabíla.
Enginn sé að fetta fingur út í að sú efnisnáma sem hér um ræðir nýtist hér eftir sem hingað til og mæti þeirri þörf í Grímsnesi og nágrenni, en ekki sé ásættanlegt að ráðast í stórtæka námuvinnslu. Þá fari þeim fjölgandi sem ekki nýti rauðamöl í húsgrunna, vegna mikillar rýrnunar á efninu, og sífellt fleiri kjósi að byggja upp vegi úr möl annarrar gerðar.
Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að sveitarstjórn Grímsness- og Grafningshrepps hafi á nýjan leik samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir malarnámi úr Seyðishólum, enda sé mikilvægt að nýta auðlindir innan sveitarfélagsins til atvinnusköpunar.
„Við viljum mótmæla því harðlega að gengið sé á þessa auðlind í útflutning og framkvæmdin er óafturkræf,“ segir Guðrún.
„Það er ósvífni af hálfu sveitarstjórnar að beita sér svona til hagsbóta fyrir örfáa aðila. Hjá sveitarstjórn ríkir mikil þröngsýni og skammsýni, ekki verið að horfa til þess hvaða áhrif slíkt malarnám muni hafa til lengri tíma eða að taka tillit til 3-400 fasteigna í nálægð við Seyðishólinn,“ segir hún.
Rétt er að halda til haga að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur í tvígang fellt framkvæmdaleyfi úr gildi, síðast með úrskurði sem gekk í apríl sl.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
