Ekki hefur enn verið haft uppi á ferðamanni sem réðst á konu sem starfar sem leiðsögumaður við Gullfoss síðasta þriðjudag. Konan segist furðu lostin yfir aðgerðarleysi viðstaddra og lögreglu, og segir skömm að því að hægt sé að fremja slíka líkamsárás án nokkurra afleiðinga.
„Þessi maður er mjög árásargjarn og hættulegur, og hann hefur fengið að komast upp með líkamsárás. Það gerir mig virkilega reiða og leiða í senn,“ skrifar hún í færslu á Facebook.
Lögreglan á Suðurlandi segir atvikið ekki hafa verið kallað út til lögreglu, líkast til vegna þess að málsaðilar voru farnir af vettvangi þegar neyðarlínu barst símtalið, og að konan verði að öllum líkindum boðuð til kærumóttöku innan tíðar.
Konan sem ráðist var á vinnur fyrir eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi, Bus Travel Iceland, og kýs að halda nafni sínu leyndu til þess að gæta eigin öryggis.
Samstarfsmaður konunnar hjá Bus Travel Iceland, Daniel Leeb, vakti athygli á atvikinu í Facebook-færslu í gærkvöldi og lét skriflega frásögn konunnar af atvikinu fylgja.
„Mig langaði alls ekki til þess að skrifa þessa færslu, en finn mig nú þvingaða til þess þar sem ég hef ekki fengið neina hjálp í þessu landi vegna þess að ég er kona, vegna þess að ég er útlendingur, eða bæði,“ er haft eftir konunni í færslunni.
„Hvort heldur sem er, þá hefur Ísland brugðist mér og leyft árásarmanni mínum að ganga lausum síðan atvikið átti sér stað.“
Aðdraganda atviksins segir konan þann að árásarmaðurinn hafi lagt húsbíl sínum í rútubílastæði á efra bílastæðinu við Gullfoss. Konan hafi vinsamlegast beðið hann um að leggja annars staðar en hann hafi svarað því að hann hefði borgað fúlgur fjár í skatt fyrir ökutækið og myndi því leggja því þar sem honum sýndist, og gengið í burtu.
Konan hafi þá tekið tvær myndir af bílnum og snúið aftur í eigin rútu. Maðurinn sá hins vegar myndatökuna, sneri við, opnaði og gekk inn í rútuna og hóf að ráðast að henni að hennar sögn.
„Gefðu mér þessa helvítis spjaldtölvu, gefðu mér myndina, þú mátt ekki taka mynd af mínum einkabíl,“ segir konan hann hafa sagt á meðan hann ýtti henni lengra inn eftir gangi rútunnar og reyndi að slá hana og sparka í og reyndi með öllum tiltækum ráðum að ná spjaldtölvunni.
Konan segir engan hafa komið sér til hjálpar þar til árásarmaðurinn greip í fótlegg hennar og dró hana út úr rútunni.
„Ég öskraði og öskraði á hjálp en enginn þeirra fimm eða sex leiðsögumanna og bílstjóra sem stóðu í kring komu að hjálpa. Ég bað þá um að hringja á lögregluna þar sem ég hafði ekki tekið símann minn með þann daginn – enginn þeirra gerði það.“
Einn leiðsögumaður hafi þó komið upp að henni og sagst vita að hún hefði haft fullan rétt á því að vísa manninum úr rútustæðinu, en að hún þyrfti að róa sig niður.
„Ég vona að allir þeir sem stóðu hjá aðgerðarlausir fái sprungið dekk á hverjum einasta degi, og ég vona að enginn ykkar eigi móður, systur, eiginkonu, kærustu, dóttur eða aðra konu í lífi ykkar, því þið mynduð greinilega bara standa hjá og horfa á mann ráðast á hana þó hún öskraði á hjálp af öllum lífs og sálar kröftum. Þið ættuð að skammast ykkar.“
Allar tilraunir konunnar til þess að fá aðstoð lögreglu reyndust árangurslausar að hennar sögn.
„Ég hringdi á lögregluna – þau neituðu að koma. Konan í símanum sagði: „Farðu á spítalann ef þú þarft þess og tilkynntu atvikið síðan á lögreglustöð,“ en þegar ég fór á lögreglustöðina í Reykjavík sögðu þau mér að ég þyrfti að fara á lögreglustöðina á Selfossi þar sem atvikið átti sér stað við Gullfoss,“ segir hún.
Þar hafi hún fengið þær móttökur að hún yrði fyrst að fylla út eyðublað á netinu, en hún hafi ekki heyrt frá þeim aftur eftir að hafa skilað því inn.
Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir ekki óeðlilegt að konunni hafi verið vísað á neteyðublað til kærumóttöku.
„Hver svo sem ástæðan fyrir því er, þá virðist atvikið ekki vera kallað út til lögreglu eftir að konan hefur samband við neyðarlínu,“ segir hann. Slíkt sé oft gert þegar atvik er þegar yfirstaðið þegar neyðarlínu berst kallið og málsaðilar farnir af vettvangi.
„Þá er viðkomandi bent á að hafa leggja fram kæru, og almenna reglan með kærumóttöku hér í afgreiðslunni er að það þarf að panta tíma í kærumóttöku, sem er eyðublaðið sem hún vísar í þarna,“ segir hann.
Konan verði að öllum líkindum boðuð í kærumóttöku innan tíðar.
Konan segir mögulegt að maðurinn sé horfinn af landi brott og að hún hafi dregið mikilvægan lærdóm af reynslu sinni: að maður geti víst gengið í skrokk á erlendri konu í þessu landi án nokkurra afleiðinga.
Hún hefur að eigin sögn mikla reynslu af sjálfsvörn og segir það einu ástæðuna fyrir því að hún hafi getað streist á móti. „Hann bjóst greinilega ekki við því að ég myndi berjast svona mikið á móti. Það er eina ástæðan fyrir því að ég meiddist ekki meira en ég gerði.“
Hún hafi þó hlotið mar víða, brotið neglur og tognað í úlnliðnum og allt sé það staðfest af lækni.
„Þetta hefði getað verið hver sem er. Þetta hefði getað verið kona með enga reynslu af sjálfsvörn og hvað þá, hefði hann þá bara kýlt hana í andlitið? Barið hana þar til hún missti meðvitund? Út af einhverri mynd af bílnum hans?“
Samstarfsmaður konunnar, Daniel, segir líklegt að árásarmaðurinn hafi þegar yfirgefið landið eða að hann muni gera það á næstu dögum með ferjunni Norrænu frá Seyðisfirði. Þó sé aldrei að vita nema hann hafi ákveðið að staldra lengur við.