Einföldun regluverks, öryggi borgaranna og daglegt líf landsmanna eru þau þrjú forgangsmál Samfylkingarinnar fram til ársins 2027 sem Kristrún Frostadóttir, formaður flokksins, kynnti í ræðu sinni sem hún flutti á flokksstjórnarfundi á Hellu um hádegisbilið í dag.
Hún greindi jafnframt frá sérstökum húsnæðis- og efnahagspakka sem ríkisstjórnin hefur komið saman og verður kynntur á næstu vikum.
Kristrún segir það liggja fyrir að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi verið sögð ganga heldur hratt til verka sé þörf á því að gera meira hraðar til þess að vinna niður vexti og verðbólgu.
Því verði pakkinn búinn nýjum efnahagsaðgerðum sem virkilega muni um og ýmiss konar aðgerðum í húsnæðismálum.
„Þær aðgerðir fela í sér tiltekt sem vinnur gegn þenslu, markvissari húsnæðisstuðning, meiri húsnæðisupbyggingu – með aukinni skilvirkni og fyrirsjáanleika, einföldun regluverks og margháttaðar aðgerðir sem við í Samfylkingu höfum talað fyrir til að draga úr hvata til að fjárfestingarvæða íbúðir – meðal annars með því að loka glufum og draga úr undanþágum í skattkerfinu.“
Pakkinn muni koma til viðbótar við endurflutt frumvörp frá vorþingi er varða Airbnb-útleigu og skráningarskyldu á vinnumarkaði.
Forsætisráðherrann kynnti jafnframt í ræðu sinni nýjan stýrihóp Samfylkingarinnar til þess að leiða fyrsta forgangsmálið flokksins er varðar daglegt líf landsmanna. Málið verður í forgangi fram að næsta flokksstjórnarfundi sem haldinn verður í vor.
„Strax í dag förum við af stað – með nýjan stýrihóp. Og á næstu vikum og mánuðum munum við banka á dyr hjá heimilum, fyrirtækjum og stofnunum og spyrja: Hvernig getur Samfylkingin aðstoðað? Hvernig léttum við lífið þitt? Hvernig bætum við daglega lífið?“ segir Kristrún.
„Þarna verður fókusinn: Passa krakkana, skutla í frístundir, kaupa í matinn. Hver er staðan hjá afa og ömmu? Hvernig er reksturinn? Og hvernig getur Samfylkingin aðstoðað?“
Þeir flokksmenn sem hópinn skipa eru flestir í einhverjum tengslum við sveitarstjórnarstigið og munu Hafnfirðingurinn Árni Rúnar Þorvaldsson sem jafnframt er kennari og formaður sveitarstjórnarráðs, Alþingismaðurinn og Eskfirðingurinn Eydís Ásbjarnardóttir, og Eyrún Fríða Árnadóttir Hornfirðingur í sveitarstjórn og formaður bæjarráðs sitja í stýrihópnum.
Þá mun Jónas Már Torfason, lögfræðingur og Kópavogsbúi, fara með formennsku hópsins.
Næsta forgangsmál á eftir daglega lífinu, einföldun regluverks, verður tekið fyrir frá vori og fram á haust árið 2026. Þá verður þriðja forgangsmálið, öryggi borgaranna, í brennidepli frá og með næsta hausti og fram að landsfundi Samfylkingarinnar vorið 2027.