Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði Reykjavíkur segja óviðunandi að takmarka aðgang að friðlandinu í Heiðmörk eins og stefnt sé að í skipulagslýsingu vegna nýs deiliskipulags Heiðmerkur, en tryggja verði almenningi greiðan aðgang að friðlandinu hér eftir sem hingað til.
Svo segir í bókun sem lögð var fram á fundi borgarráðs sl. fimmtudag, þar sem tillaga að nýju deiliskipulagi Heiðmerkur var kynnt.
Hið nýja skipulag sem ætlunin er að taki gildi á næsta ári takmarkar mjög umferð um Heiðmörk, en það á að gera í þágu vatnsverndar.
Í bókun sjálfstæðismanna kemur m.a. fram að Heiðmörk sé stærsta og fjölsóttasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Þangað sæki fjöldi fólks á öllum aldri til að njóta náttúrunnar og kynnast gróðri, dýralífi, tjörnum, vötnum og jarðmyndunum. Greiður aðgangur almennings að grænum svæðum hafi ómetanlegt gildi fyrir lýðheilsu og menntun.
„Í fyrirliggjandi skipulagslýsingu vegna nýs deiliskipulags fyrir Heiðmörk kemur fram að takmarka eigi stórlega aðgang almennings að Heiðmörk í nafni vatnsverndar. Ekkert bendir hins vegar til þess að núverandi útivist á svæðinu hafi neikvæð áhrif á vatnsgæði. Með slíkri breytingu væri almennur réttur borgara til að njóta stærsta útivistarsvæðis höfuðborgarsvæðisins takmarkaður verulega,“ segir í bókuninni.
Telja sjálfstæðismenn að unnt sé að tryggja gæði neysluvatns án þess að skerða stórlega aðgang almennings að Heiðmörk. Fyrirhugaðar lokanir, þar sem loka eigi öllu grannsvæði vatnsverndar fyrir bílaumferð, orki tvímælis. Ófullnægjandi kynning og rökstuðningur fyrir takmörkunum á aðgangi að Heiðmörk hafi þegar haft neikvæð áhrif, t.d. vegna skipulagðra ferða skólabarna sem tæpast ógni vatnsvernd.
Á fundinum var samþykkt tillaga borgarstjóra um stofnun samráðshóps um Heiðmörk til að tryggja að hugað sé að hagsmunum íbúa, nærsamfélags og helstu hagaðila varðandi deiliskipulagið, vera til stuðnings og ráðgjafar til að tryggja öryggi grunnvatns, skógræktar og að svæðið nýtist áfram til útivistar.
Stofnun hópsins segir fulltrúi Framsóknarflokksins í bókun vekja furðu, enda hafi meirihlutaflokkarnir í sumar fellt tillögu flokksins um sama mál. Þar hafi verið lagt til að fulltrúar allra flokka í borgarstjórn fengju aðkomu að málinu og gætu átt í milliliðalausu samtali við alla hagaðila til að tryggja bæði útivist og vatnsvernd. „Framsókn gagnrýnir harðlega vandræðaleg vinnubrögð meirihlutans í þessu máli,“ segir í bókuninni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
