Á tæplega hálfrar aldar ferli sem blaða– og fréttamaður hefur Kristján Már Unnarsson upplifað stórbrotna hluti. Það eru þó oftar en ekki sögur af fólki sem hafa hreyft mest við honum. „Þá fór ég að gráta. Þetta var svo fallegt,“ segir Kristján Már og verður hálf klökkur þegar hann rifjar upp sögu af litlum dreng sem var að öðlast sjón í fyrsta sinn, eftir aðgerð. „Þetta var lítill strákur og það var verið að setja á hann gleraugu og hann áttar sig á því að hann sér. Hann horfir á mömmu sína og það verður svona... Maður gat ekki annað en tárast. Þetta var svo sterkt augnablik.“
Kristján Már er gestur Dagmála og með fréttinni fylgir brot af viðtalinu. Við grípum niður þar sem hann er nýlega búinn að fara yfir hið stórbrotna gos í Holuhrauni 2014. Hversu erfiðar aðstæður var þar glímt við og hversu stórt það gos var. „Þetta færi svona á topp tíu listann,“ segir hann, en heldur svo áfram. „Svo eru það líka litlu atvikin. Samskipti við venjulegt fólk. Stundum var maður bara hálf grátandi. Maður þykist vera stór og sterkur karlmaður en þó hef ég stundum lent í því að ég fer nánast að gráta.“
Hann nefnir sem eitt slíkt áhrifaríkt atvik þegar hann var að gera þátt um fjörutíu ára afmæli Heimaeyjargossins. Þá fór hann með eldri hjónum sem voru að vitja heimilis síns eftir áratugi, en húsið hafði grafist undir ösku. „Þau höfðu verið ung hjón nýbúin að byggja húsið, og eru að upplifa það að það er verið að opna aftur þetta heimili sem þau höfðu ekki séð í fjörutíu ár.“
Kristján viðurkennir að við það að fylgjast með hjónunum þá hafi hann hreinlega tárast. Hann spurði þau hvort það væri eitthvað sérstakt sem þau vonuðust til að sjá aftur. Konan svaraði því til að það væri gaman að sjá barnavagninn sem þau hefðu átt.
Þáttinn í heild sinni geta áskrifendur Morgunblaðsins nálgast með því að smella á linkinn hér að neðan.