„Erum með aukið viðbragð“

Frá síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni í júlí.
Frá síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni í júlí. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum með aukið viðbragð og erum bara á tánum en sem stendur er allt rólegt á svæðinu,“ segir Iðunn Kara Valdimarsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, spurð út í stöðuna á Sundhnúkagígaröðinni.

Neðri mörk kvikusöfnunar sem þarf fyrir kvikuhlaup eða eldgos eru 11 milljónir rúmmetra og var þeim náð um nýliðna helgi. Viðvörunarstig á svæðinu hefur verið hækkað. 

„Þessum neðri mörkum hefur nú verið náð og þá setjum við okkur í viðbragðsstöðu. Við fylgjumst vel með gangi mála. Það er ómögulegt að segja til um það hvort eða hvenær dragi til tíðinda. Það getur byrjað að gjósa hvenær sem er en svo getur kvikuinnflæðið minnkað og þetta fjari út. Við verðum bara að bíða og sjá,“ segir Iðunn.

Ef til eldgoss kemur er líklegasti upptakastaðurinn áfram talinn vera á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells líkt og í síðustu gosum en í goshrinunni sem hófst á Sundhnúkagígaröðinni í desember 2023 hefur gosið níu sinnum.

Síðasta gos hófst 16. júlí og því lauk 5. ágúst. Gosið þótti ekki stórt miðað við fyrri gos í hrinunni en megingossprungan náði mest 2,4 km að lengd og önnur styttri um 500 metrar að lengd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert