Flugfélagið Play hefur birt tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem farið er yfir réttindi farþega.
Eru farþegar sem staddir eru erlendis og áttu bókað flug heim með félaginu hvattir til að kynna sér flug hjá öðrum félögum sem sum hver bjóða upp á svokölluð björgunarfargjöld.
Greint var frá því í morgun að Play væri hætt starfsemi og hefur það áhrif á um 1.000 farþega sem staddir eru erlendis á vegum félagsins og þurfa að endurskipuleggja heimför sína.
Þá er þeim sem keyptu flugmiða hjá félaginu með kreditkorti bent á að hafa samband við sitt kortafyrirtæki vegna endurgreiðslu. Hafi bókun verið hluti af pakkaferð hjá ferðaskrifstofu innan EES er einnig bent á að hafa samband við ferðaskrifstofuna.
Jafnframt er bent á að réttindi farþega kunni einnig að nást samkvæmt Evrópureglum um réttindi flugfarþega. Í slíkum tilfellum skuli beina kröfum til skiptastjóra.
Er fólki vísað á frekari upplýsingar á vef Samgöngustofu og Keflavíkurflugvallar.
Í lok tilkynningarinnar er beðist velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta veldur og þakkað fyrir skilninginn.
