Verðið tvöfaldaðist þegar bókunin var hálfnuð

Konan átti bókað flug með Play frá Lundúnum en varð …
Konan átti bókað flug með Play frá Lundúnum en varð að finna nýtt flug þar sem félagið er gjaldþrota. Í miðju bókunarferli hjá Icelandair segir konan verðið hafa tvöfaldast. mbl.is/Sigurður Bogi

Kona sem ætlaði að bóka ferð frá Lundúnum með Icelandair segir verðið á miðunum hafa tvöfaldast í miðju bókunarferli, rétt eftir að Play tilkynnti að félagið væri hætt starfsemi.

Hún hafi verið búin að staðfesta allar upplýsingar og það eina sem hafi verið eftir var að skrá inn greiðsluupplýsingar þegar kostnaðurinn fór úr um það bil 150 þúsundum króna í 300 þúsund krónur.

Konan, sem vill ekki koma fram undir nafni, átti bókað flug með Play frá Lundúnum í október. Hún fór strax í að bóka nýja flugmiða fyrir fjölskylduna þegar hún sá að flugfélagið hefði hætt starfsemi.

Ólíkt þúsundum annarra farþega sem eru strandaglópar erlendis er konan enn heima á Íslandi. 

Síðan uppfærðist fyrir framan konuna

„Ég var búin að festa gjaldið, búin að setja inn allar upplýsingarnar og það eina sem ég átti eftir að gera var að greiða. Ég sé síðan hvernig öll síðan þeirra uppfærist fyrir framan mig og verðið tvöfaldast,“ lýsir konan.

Hún segist verulega ósátt við Icelandair sem virðist vera að nýta sér stöðuna þegar margir farþegar eru í neyð. 

mbl.is hefur óskað eftir upplýsingum frá Icelandair um hvernig félagið ætli að bregðast við að Play sé hætt starfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert