Engar framkvæmdir eru í gangi við varnargarðana rétt ofan við Grindavík en fyrir liggur tillaga um hækkun garðanna.
Málið er á borði dómsmálaráðherra og segir Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, í samtali við mbl.is að beðið sé eftir því að tillagan verði samþykkt svo hægt verði að hefja framkvæmdirnar.
Um nýliðna helgi var neðri mörkum kvikusöfnunar, 11 milljónir rúmmetra, sem þarf fyrir kvikuhlaup eða eldgos við Sundhnúkagígaröðina náð og hefur viðvörunarstig verið hækkað á svæðinu.
„Það liggur fyrir tillaga um hækkun á einum hluta þar sem hraun úr eldgosinu í apríl rann upp að görðunum. Þetta er um hálf kílómetra kafli þar sem við höfum lagt til að hækka garðana um tvo metra. Garðurinn á þessum kafla er of lágur fyrir stærstu tilvikin þannig að við höfum gert tillögu um að þetta verði lagfært,“ segir Ari við mbl.is.
Ari segist hafa vitneskju um að verið sé að funda á milli almannavarna og dómsmálaráðuneytisins í þessari viku og beðið sé eftir svörum hvað málið varðar.
„Ég er að vona að við fáum jákvæða niðurstöðu og við ættum innan fárra daga að geta hafist handa með verktökum á svæðinu ef samþykki fæst við framkvæmdunum. Vinnan gæti tekið um tvær vikur,“ segir hann.
