Brynhildur Ösp Þorsteinsdóttir, sem missti dóttur sína í sjálfsvígi í júlí síðastliðnum, gagnrýnir að barnavernd hafi ekki gripið inn í mál fjölskyldunnar af meiri festu en raun bar vitni.
Hún segist ítrekað hafa grátbeðið um hjálp fyrir sig og dóttur sína. Eitthvert úrræði þar sem hægt hefði verið að styðja betur við stúlkuna, en hún sem foreldri var fær um að gera. Á heimilinu var bæði neysla og ofbeldi og var lögreglan ítrekuð kölluð til, en það virtist ekki duga til að aðhafst væri af einhverri alvöru.
María Lilja, dóttir Brynhildar, var aðeins sautján ára þegar hún lést og hafði glímt við fíknivanda um árabil. Hún átti alla tíð erfitt uppdráttar í skóla, var með slaka tilfinningastjórn, fékk skapofsaköst og beitti gjarnan miklu ofbeldi. Hún var svo greind á einhverfurófi. Í skólanum var hún tekin út úr hópnum og færð afsíðis en upplifði fyrir vikið mikla höfnunartilfinningu.
Brynhildur steig fram í viðtali í Morgunblaðinu og á mbl.is á laugardag, ásamt Hilmu Dögg Hávarðardóttur sem missti son sinn í sjálfsvígi í byrjun september. Í viðtalinu lýstu þær því hvernig þeim fannst skólakerfið bregðast börnunum og gagnrýndu meðal annars úrræðaleysi barnaverndar.
María Lilja var 14 ára þegar mikið áfall reið yfir fjölskylduna. Bróðir hennar, sem þá var 17 ára, datt illa og höfuðkúpubrotnaði, fékk heilablæðingu og í kjölfarið framheilaskaða.
Skaðinn reyndist varanlegur og þegar hann hafði jafnað sig af áverkunum tók við mikil neysla og hefur hann verið inn og út af geðdeild síðan. Bróðir hennar hafði áður glímt við langvinn veikindi og þurfti að dvelja mikið á sjúkrahúsi. Brynhildur var því mikið fjarverandi og upplifði María Lilja það þannig að móðir hennar væri að hafna henni.
„Hún féll í skuggann þarna eina ferðina enn. Hann hafði verið veikur í langan tíma en loksins þegar hann varð frískur datt hann og ég þurfti að mæta aftur upp á spítala. Svo tók neyslan við.“
María Lilja fór að draga sig í hlé og var mikið ein inni í herbergi. Brynhildur fór að hafa áhyggjur af henni, en það var ljóst að dóttur hennar leið illa. Þegar hún minntist á þetta við lækninn hennar sagði hann að sumir væru bara svona.
Við tóku mjög erfiðir tímar hjá fjölskyldunni. María Lilja var farin að reykja gras, stela og ljúga og Brynhildur leiddist sjálf út í neyslu morfínskyldra lyfja.
„Börnin mín höfðu aldrei séð mig undir áhrifum fyrr en árið 2021. Ári seinna missti ég tökin. Ég veiktist og þurfti að vera á sjúkrahúsi í sex vikur þar sem ég varð háð morfíni, en ég var nokkurn veginn fúnkerandi. Ég hélt heimili og börnin mín skorti ekki neitt. En öll þessi brenglun átti sér stað inni á heimilinu.“
Einu sinni kom dóttir hennar að henni þar sem hún taldi sig vera að tala við frænku sína, en þá var hún að tala við sófaborðið.
„Af hverju tók enginn barnið úr þessum aðstæðum?” spyr Brynhildur og er mikið niðri fyrir. Samtalið vekur upp erfiðar minningar
„Ég hringdi á barnavernd og bað um að hún yrði fjarlægð af heimilinu því ég var ekki fær um að hugsa um hana.“ María Lilja fór í kjölfarið fóstur í þrjá mánuði og Brynhildur fór í meðferð. „Þau reyndu að láta mig fá hana fyrr því hún vildi koma heim. En ég þurfti að lenda heima eftir meðferð og aðlagast lífinu.“
Þegar stúlkan kom aftur heim var ástandið lítið skárra og Brynhildur réð illa við aðstæður á þeim tíma. „Hún hélt áfram að reykja og taka sveppi, ég var með annað barn á heimilinu og að reyna að halda mér á floti edrú. Að berjast við þetta allt.“
Brynhildur óskaði ítrekað eftir aðstoð. Óskaði eftir því að dóttir hennar kæmist í eitthvert úrræði þar sem hægt væri að takast á við fíknivandann og þörfum hennar væri mætt. Það eina sem bauðst á þeim tíma var að fá svokallaða tilsjón inn á heimilið, en Brynhildur sá ekki að það gæti leyst vandann sem fór stigvaxandi. Tilsjónaraðili inni á heimili á að leiðbeina foreldrum varðandi uppeldisaðgerðir, markasetningu, örvun og umönnun.
Ástandið á heimilinu var hins vegar svo alvarlegt og Brynhildur skildi ekki af hverju barnavernd greip ekki inn í af meiri krafti. Það var neysla og ofbeldi og lögreglan ítrekað kölluð til. Samt gerðist ekkert.
„Ég skil ekki að barnavernd hafi ekki verið að anda ofan í hálsmálið á mér. Vegna neyslu bróður hennar, öll skiptin sem lögreglan kom inn á heimilið eða sjúkrabíll, eða innlagnir hans inn á geðdeild. Af hverju var ekki horft á barnið sem var í aðstæðunum? Af hverju var hún aldrei gripin?” spyr Brynhildur og reynir ekki með neinum hætti að fegra ástandið. Hún vill vera heiðarleg og koma til dyranna eins og hún er klædd.
„Einu sinni kom lögreglan og heimilið mitt var eins og geðsjúkrahús. Ég var inni í mínu herbergi, strákurinn í sínu herbergi og hún í geðveikisástandi í sínu herbergi. Lögreglan skildi ekki hvað var í gangi en talaði við hana, fór með hana til læknis og kom svo aftur með hana heim. Hafði barnavernd samband? Nei. Þau systkinin fóru að slást, hann var handtekinn og settur í fangaklefa og hún fékk áverkavottorð. Barnavernd kom ekki. Þarna var hún 16 ára. Af hverju kom enginn og talaði við mig?“
Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á: Pieta samtökin, s. 552-2218, Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið 1717.is, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is. Í neyð hringið í 112. Varðandi stuðning eftir missi í sjálfsvígi er bent á Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is, Sorgarmiðstöð, s. 551-4141, og sorgarmidstod@sorgarmidstod.is, síma Pieta samtakanna, 552-2218. Í neyð hringið í 112.