Vinna við að koma upp vörnum gegn drónum stendur yfir hér á landi, en hún var hafin áður en óþekktir drónar sáust í danskri og norskri lofthelgi nýverið og trufluðu flugumferð.
Hugsanlegt er að farið verði í samstarf við nágrannaþjóðir um stórt loftvarnakerfi gegn drónum og hafa samtöl um það átt sér stað við ráðamenn norðurlandaþjóða. Einnig þarf að huga að lagasetningu um eftirlit með drónum.
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í samtali við mbl.is. Hún bendir þó að enn sé ekki vitað um uppruna drónana í Danmörku, en drónar hafa meðal annars sést yfir Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn og í Álaborg. Einnig hafa drónar sést á flugi við Brønnøysund-flugvöllinn á vesturströnd Noregs.
„Það þarf að huga að því að setja reglur. Ég held við þurfum að skoða lagasetningu hér innanlands upp á að hafa skýrt eftirlit með drónum. Við getum ímyndað okkur þetta hér svæði þar sem öll stjórnsýslan er,“ segir hún og vísar til miðborgarinnar. „Allar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa einhvern ramma um slíkt,“ bætir hún við.
„Það var þverfagleg vinna hafin um þessi mál, en mesta greiningin er hjá ríkislögreglustjóra og getan. Við höfum verið í samstarfi þvert á ráðuneyti; dóms- og utanríkis- og innviðaráðuneytið kemur að einhverju leyti inn í þetta líka með Isavia-svæðið yfir öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.“
Ljóst sé að taka þurfi næstu skref í að treysta varnir Íslendinga gegn drónum og er unnið með ákveðnar tillögur í þeim efnum.
„Hluti af því verður aukið samstarf við okkar nágrannaþjóðir. Ég talaði óformlega við varnarmálaráðherra Dana í Grænlandi á dögunum um að við gætum komið að og fengið fylgjast með. Hugsanlega verið í einhverri samvinnu með þetta stóra loftvarnarkerfi gegn drónum. Hvernig það gæti hugsanlega hentað okkur og okkar rými,“ segir Þorgerður.
Núna sem aldrei fyrr skipti máli að vera í góðu sambandi við aðrar þjóðir.
„Danir eru að fara í samstarf við Úkraínu, sem eru illu heilli að einhverju leyti, en samt nýtist það í dag, með mestu sérfræðikunnáttuna á sviði drónaþekkingar og færni. Það er mjög góð samvinna á milli ráðuneyta og stofnana sem mun leiða til þess að stofnanir verða enn frekar styrktar á því sviði. En það verður líka gert í samvinnu við önnur NATO-ríki.“