Kristjánsbakarí á Akureyri, sem stofnað var árið 1912 og er eitt elsta iðnfyrirtæki landsins, verður lagt niður. Hátt í tuttugu starfsmenn missa vinnuna en skellt hefur verið í lás í bakaríunum í Hrísalundi og Hafnarstræti í síðasta sinn.
Margir starfsmannanna eru í hlutastarfi að sögn Vilhjálms Þorlákssonar, framkvæmdastjóra og eins eiganda Gæðabaksturs. Sumir alveg niður í 5 eða 10% starfshlutfall.
Vilhjálmur segir í samtali við mbl.is að mjög líklegt sé að nýr rekstraraðili taki yfir verslunina í Hafnarstræti og að hún verði rekin áfram undir öðrum merkjum.
Heildsöluframleiðsla undir merkjum Kristjáns verður áfram í Hrísalundi á Akureyri og hjá Gæðabakstri í Reykjavík.
„Gæðabakstur hefur verið í heildsölu eiginlega frá upphafi. Við kunnum það, erum í því og höldum því bara áfram. Kristjáns er og verður áfram sterkt vörumerki með góðar vörur.“ segir Vilhjálmur.
Ákvörðunin um að loka Kristjánsbakaríi var Vilhjálms að hans sögn.
„Ég er bara að halda áfram rekstri fyrirtækis sem ég hef rekið í yfir þrjátíu ár. Þetta er bara mín ákvörðun og stjórnarinnar.
Stutta útgáfan er að við erum að gera það sem er hagstæðast. Hluthafar eru ekki sáttir að vera að borga með þessu endalaust.“ segir Vilhjálmur en rekstur hefur verið þungur og ekki næg velta miðað við kostnað af starfseminni.
Kristjánsbakarí, sem stofnað var árið 1912 er eitt elsta iðnfyrirtæki landsins. Gæðabakstur hefur rekið Kristjánsbakarí frá árinu 2015. Í tilkynningu sem Gæðabakstur sendi frá sér í kjölfar ákvörðunarinnar kmeur fram að fyrirtækið muni skoða alla möguleika með frekari breytingar í huga.
„Stjórn Gæðabaksturs þakkar þeim starfsmönnum sem nú láta af störfum fyrir vel unnin störf og óskar þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum.“
Í janúar var tilkynnt um áform Ölgerðarinnar að kaupa 100% hlut í Gæðabakstri. Kaupin hafa ekki enn gengið í gegn en þau eru til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.