Isavia hefur í tvígang á síðustu vikum borist tilkynningar um dróna á sveimi við Keflavíkurflugvöll, innan og utan haftasvæðis.
Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segist í samtali við mbl.is hafa vitneskju um tvö tilvik nýlega þar sem haft var samband við lögreglu vegna drónaflugs við Keflavíkurflugvöll.
Guðjón segir að ef Isavia fái ábendingar um dróna eða vart verði við dróna þá sé það fyrsta sem gert er að athuga hvort veitt hafi verið drónaflugsleyfi á og í kringum við flugvöllinn.
Hann segir að ef komi ábendingar um dróna og ekki sé leyfi fyrir þeim sé haft samband við lögregluna og það hafi verið gert í báðum þessum tilvikum.
Ómar Mehmet Annisius, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is um málið að hann geti staðfest að umræddar tilkynningar um drónaflug hafi borist lögreglunni.
„Lögreglan tekur öllum tilkynningum um drónaflug við og yfir athafnarsvæði Keflavíkurflugvallar alvarlega,“ segir í svari Ómars.
„Við sendum út lögreglutæki og mannskap til þess að svipast um samhliða upplýsingaöflun. Að lokinni vettvangsrannsókn í báðum tilfellum, var ekki hægt að staðfesta að um dróna hafi verið að ræða.“