Alls hafa 577 lögreglumenn fengið þjálfun í að nota rafvarnarvopn hér á landi í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar.
Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir námið hafa gengið afar vel enda úrvalsþjálfarar til staðar.
Upphaflega voru keypt 120 rafvarnarvopn af bandaríska fyrirtækinu Axon. Síðan þá hafa lögregluembættin sjálf getað keypt slík vopn. Skipulagið er mismunandi varðandi notkunina og sum embættin samnýta vopnin.
Að sögn Rannveigar er almenna reglan sú að menn bera vopnin á sér í slíðri. Gikkur er á þeim og þegar þau eru dregin upp fer búkmyndavél sjálfkrafa í gang.
„Þegar þú dregur vopnið er líklegt að viðkomandi sé í þannig aðstæðum að það sé hætta á ferð. Líka þegar vopnið er dregið og myndavélin fer í gang þá kviknar á ákalli inni á fjarskipti,” greinir hún frá og nefnir að þar fylgist lögreglan með því sem gerist í rauntíma og kallar út liðsauka ef þörf krefur.
Þetta segir Rannveig mikilvægt því lögreglumenn séu oft einir á vakt og þannig sé hægt að tryggja með skjótum hætti stuðning við þá ef slíkar aðstæður koma upp. Einnig nefnir hún mikilvægi tengsla búkmyndavélanna og rafvarnarvopnanna hvað gegnsæi varðar.
Ef einstaklingar vilja kvarta yfir notkun þeirra má alltaf beina þeim til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu. Sömuleiðis hefur dómsmálaráðuneytið skipað starfshóp sem fer yfir hvert tilfelli þar sem rafbyssur eru notaðar.