Ekkert votlendi endurheimt

Birgir Urbancic Ásgeirsson, sérfræðingur í teymi losunarbókhalds hjá Umhverfis- og …
Birgir Urbancic Ásgeirsson, sérfræðingur í teymi losunarbókhalds hjá Umhverfis- og orkustofnun. mbl.is/Karítas

Ekkert votlendi var endurheimt hér á landi í fyrra en slík endurheimt gæti skipt sköpum þegar kemur að því að draga losun gróðurhúsalofttegunda saman.

Þetta kom fram í máli Birgis Urbancic Ásgeirssonar, sérfræðings í teymi losunarbókhalds hjá Umhverfis- og orkustofnun, á loftslagsdeginum sem fer fram í Hörpu í dag.

Í samtali við mbl.is segir Birgir að sennilega valdi tregða í kerfinu þessu aðgerðaleysi þegar kemur að endurheimt.

Endurheimt í uppáhaldi hjá ráðherra

„Það er talað um að það þurfi að gera þetta vel, og það er rétt. Það er ekki nóg að senda út gröfu og byrja að moka í skurð. Menn þurfa að hugsa hvar eigi að endurheimta votlendi og hvernig og gera það almennilega,“ segir Birgir.

„En það er einhver tregða í kerfinu hjá okkur því miður, og það snýr ekki bara að einkajörðum heldur líka að ríkisjörðum.“

Hann segir þó að vonandi muni þetta aðgerðarleysi í endurheimt votlendis heyra sögunni til fljótlega en þegar Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra, kynnti forgangsaðgerðir í loftslagsmálum á dögunum lýsti hann því yfir að uppáhaldsloftslagsaðgerð sín væri endurheimt votlendis.

Alls ekki hætt

„Umhverfis- og loftslagsráðuneytið tilkynnti núna í síðasta mánuði að það ætti að fara að breyta þessu, þannig að við bindum vonir við að svo sé. En maður hefði haldið að endurheimt votlendis væri komin lengra,“ segir Birgir.

Við erum sem sagt ekki algjörlega hætt að endurheimta votlendi?

„Alls ekki. En þetta er kannski of mikið talað og minna gert. Við þurfum að láta verkin tala.“

Fjöldi fólks er saman kominn í Hörpu þessa stundina til …
Fjöldi fólks er saman kominn í Hörpu þessa stundina til að fræðast um loftslagsmál. mbl.is/Karítas

Kjarninn skýr

Annað sem fram kom í erindi Birgis var að jafnvel þó að öll markmið og aðgerðir stjórnvalda til að draga úr losun gangi eftir muni enn þá vanta 10 - 12 % upp á til að kolefnishlutleysi náist árið 2040.

„Ef við förum í þær aðgerðir sem við höfum talað um að fara í þá virðist það ekki vera nóg. Þannig að við þurfum að gefa meira í, og einhvern veginn þurfum við að brenna minni olíu. Við þurfum að ná að lækka losunina meira,“ segir Birgir.

En hvernig förum við að því?

„Það má svo deila um það en það eru jú orkuskiptin, það er að keyra minna af bílum en þetta á líka við um skip og þetta á við í landbúnaði og úrgangi. Þannig að við þurfum bara að herða okkur enn þá meira í öllum málaflokkum.“

Hann segir kjarnann þó vera skýran: „Við þurfum að endurheimta votlendi og brenna minni olíu.“

Sanngjörn krafa?

Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun í gegnum alþjóðlega samninga. Spurður hvort að það sé sanngjörn krafa að Ísland dragi jafn mikið úr losun og aðrar vestrænar þjóðir þrátt fyrir að stór hluti orku hér á landi hafi um árabil verið endurnýtanlegur bendir Birgir á að skuldbindingar Evrópuþjóða séu nokkuð ólíkar.

„Það er ýmislegt sem spilar þar inn í. Það er meðal annars hversu langt menn voru komnir en líka hversu auðugt landið er,“ segir Birgir.

„Margar þjóðir hafa bent á að það er heldur ekki sanngjarnt að þriðja heims ríki dragi úr losun þegar þau hafa ekki notið góðs af öllu sem hefur gerst síðastliðin 150 ár.

Þannig að, já, í fljótu máli myndi ég segja að það er sanngjarnt að Ísland dragi úr losun og þó svo að við höfum verið í góðum málum þegar kemur að orkuframleiðslu þá er staðan ekki góð í mörgum öðrum geirum. Það er ekki nóg að líta bara á það góða og líta fram hjá því þar sem að við stöndum okkur ekki nógu vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert