Jeremi Suchocki hefur búið á Íslandi frá tveggja ára aldri, lokið grunnskólanámi og framhaldsáfanga í íslensku frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þrátt fyrir það fékk hann synjun á umsókn sinni um íslenskan ríkisborgararétt þar sem Útlendingastofnun taldi fylgigögn um íslenskunám ekki hafa borist.
Hann segir að gögnin hafi sannarlega verið send en að umsóknarferlið beri vott um slæma málsmeðferð og óskýrar reglur.
Jeremi furðar sig á því hvernig honum hafi ekki verið svarað þegar hann óskaði ítrekað eftir staðfestingu á móttöku stofnunarinnar á fylgigögnunum, sem hann segist sannarlega hafa skilað. Miðað við ákvörðun Útlendingastofnunar virðast þau ekki hafa komist til skila.
Þá furðar hann sig á þeim reglum, sem liggja til grundvallar undanþágu umsækjenda um íslenskan ríkisborgararétt, frá íslenskuprófi vegna slíkra umsókna.
Að mati Útlendingastofnunar geta loknir áfangar á framhaldsskólastigi fallið undir undanþáguheimild um íslenskupróf. Ákvörðun Útendingastofnunar í máli mannsins ber með sér að stofnuninni hafi ekki borist hluti fylgigagna með umsókn hans en Jeremi kveðst hafa skilað meðal annars námsferilsyfirliti úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem fram kemur að hann hafi lokið prófi í íslensku fyrir útlendinga.
Útlendingastofnun synjaði manninum um ríkisborgararétt á grundvelli ófullnægjandi fylgigagna. Svo segir í ákvörðun Útlendingastofnunar:
„Óskað var eftir því að umsækjandi leggi fram gögn til undanþágu, t.d. námsferilsyfirlit úr framhaldsskóla, hafi hann stundað nám við slíkan skóla, þar sem fram kemur hvaða áfanga umsækjandi hafi lokið í íslensku.“
Námsferilsyfirlit sem mbl.is hefur undir höndum sýnir að hann lauk sannarlega framhaldsáfanga í íslensku sem annað tungumál í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 2018 og þá sýna gögn sem mbl.is hefur undir höndum að Jeremi sendi það námsferilsyfirlit til Útlendingastofnunar í umsóknarferlinu um íslenskan ríkisborgararétt.
Jeremi er fæddur í Póllandi árið 2001 en hann flutti með móður sinni til Íslands árið 2003. Á þeim tíma leitaði móðir hans betra lífs og launa og fleiri möguleika hér á landi þegar staðan í Póllandi var ekki sú besta.
Þannig hefur Jeremi gengið í skóla á Íslandi alla sína skólagöngu allt frá leikskólaaldri. Fjölskyldan fluttist búferlum nokkuð fyrstu árin en lengstum var Jeremi í Smáraskóla í Kópavogi eða frá þriðja bekk og fram yfir útskrift.
Frá Smáraskóla fór hann í Fjölbrautaskólann í Breiðholti en stoppaði stutt þar við þegar hann varð pabbi, aðeins 18 ára gamall, og þurfti að fara út á vinnumarkaðinn.
Hann hefur unnið við ýmislegt á sínum starfsferli, lengst hjá Öryggismiðstöðinni, en í dag starfar hann á stjórnstöð Strætó BS.
Í samtali við mbl.is furðar Jeremi sig á reglunum og málsmeðferðinni hjá Útlendingastofnun og segir hann það eins og að þar séu nöfn dregin úr hatti og stimpli skellt á.
„Það var ekkert viðtal, fundur eða neitt gert til að athuga stöðuna. Eingöngu bréf sent og því miður var ég greinilega ekki dreginn úr þessum hatti.“
Jeremi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til dómsmálaráðuneytisins, sem staðfesti ákvörðunina.