Lægsta boð í Fossvogsbrú þriðjungi yfir áætlun

Fossvogsbrú Brúin á að vera 270 metrar að lengd.
Fossvogsbrú Brúin á að vera 270 metrar að lengd. Tölvumynd

Tilboð í smíði Fossvogsbrúar voru opnuð síðdegis í gær og bárust tvö tilboð í verkið. Lægra boðið kom frá Ístaki og Per Aarsleff AS. Bæði tilboðin voru umtalsvert umfram áætlun. Brúarsmíðin er hluti af fyrsta áfanga borgarlínuverkefnisins.

Í tilkynningu frá Betri samgöngum kemur fram að áætlaður kostnaður við brúarsmíðina hafi verið 5,96 milljarðar.

Tilboðin tvö sem bárust voru eftirfarandi:

  • Ístak hf. & Per Aarsleff AS – Istak-Aarsleff JV. Tilboðsverð m/vsk 7.898.532.093 
  • Depenbrock Scandinavia ApS & Depenbrock Ingenieurwasserbau GmbH & Co.  KG - JV Depenbrock Fossvogur. Tilboðsverð m/vsk 8.221.364.124 

Voru tilboðin því 33% og 38% umfram áætlaðan kostnað.

Þegar eru framkvæmdir farnar af stað við sjóvarnargarð og landfyllingar vegna brúarinnar, en verksamningur sem gerður var vegna þess var 70% af áætluðum kostnaði.

Fram kemur í tilkynningu að nú taki við ítarleg yfirferð og mat á tilboðum.

Fossvogsbrú er ætluð Borgarlínuvögnum, strætisvögnum, gangandi og hjólandi vegfarendum auk forgangsakstri lögreglu, sjúkraflutninga og slökkviliðs. Gert er ráð fyrir að brúin verði tilbúin til notkunar haustið 2028.
Framkvæmdir við landfyllingu og sjóvarnir fyrir Fossvogsbrú hófust fyrr á …
Framkvæmdir við landfyllingu og sjóvarnir fyrir Fossvogsbrú hófust fyrr á þessu ári. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert