Stéttarfélagið Framsýn á Húsavík vill mynda breiðfylkingu um að tryggja frekari starfsemi PCC á Bakka til framtíðar. Rekstrarstöðvun PCC er mikið högg fyrir samfélagið nyrðra og glatast hátt í 200 störf ef framleiðsla hefst ekki að nýju.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem stéttarfélagið sendi frá sér en það stóð fyrir fjölmennum félagsfundi á Húsavík í gær.
Í tilkynningunni segir að Framsýn vilji mynda breiðfylkingu með öllum sem tengjast starfseminni á Bakka, eigendum PCC, stjórnvöldum, stjórnendum Norðurþings, Landsvirkjun, Landsneti og stéttarfélögum starfsmanna. Stéttarfélögin séu reiðubúin til þess.
Framsýn kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málinu þegar í stað með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu.
Morgunblaðið fjallaði um áhrif rekstrarstöðvunar PCC sl. mánudag og ræddi þar við formann Framsýnar, Aðalstein Árna Baldursson. Sagði hann áhrifanna þegar gæta í samfélaginu og fólk farið að flytja í burtu frá bænum.
„Áhrifin af lokun PCC eru þegar farin að hafa veruleg áhrif enda um að ræða fjölmennan vinnustað auk þess sem fjöldi undirverktaka hefur treyst á starfsemi fyrirtækisins. Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum, það er fyrir utan afleidd störf sem telja tugi starfa til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikla áherslu á að skipta við verslunar- og þjónustuaðila í nærsamfélaginu auk þess að styðja myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfsemi á Húsavík. Á árinu 2024 varði fyrirtækið 3,7 milljörðum króna í laun, gjöld, skatta og kaup á þjónustu á svæðinu,“ segir í tilkynningu Framsýnar.
Þá segir þar enn fremur að fyrir liggi að rekstrarörðugleikar PCC komi til með að hafa víðtæk áhrif á getu sveitarfélagsins Norðurþings til að standa undir sínum lögbundnu skyldum gagnvart íbúum vegna minnkandi tekna af starfsemi fyrirtækisins er tengist ekki síst útsvarstekjum starfsmanna, fasteigna- og hafnargjöldum.
Ákvörðun um að stöðva framleiðsluna byggir ekki síst á erfiðleikum á mörkuðum fyrir kísilmálm og röskunum á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Þá bætir fríverslunarsamningur Íslands við Kína ekki samkeppnisstöðu PCC við innfluttan málm til frekari vinnslu á Íslandi.