Rafbyssum beitt sjö sinnum: Hnífaógn efst á blaði

Samsett mynd af Rannveigu Þórisdóttur og lögreglukonu með rafvarnarvopn.
Samsett mynd af Rannveigu Þórisdóttur og lögreglukonu með rafvarnarvopn. Samsett mynd

Lögreglan beitti rafvarnarvopni sjö sinnum frá því að það var fyrst tekið í notkun sem valdbeitingartæki í september í fyrra þangað til í júní síðastliðnum. Á sama tímabili var vopnið dregið úr slíðri eða ógnað með því 69 sinnum.

Þetta kemur fram svari embættis ríkislögreglustjóra við fyrirspurn mbl.is.

Á ársfjórðungnum apríl til og með júní síðastliðnum var rafvarnarvopni beitt tvisvar sinnum við handtöku. Á því tímabili var það dregið úr slíðri eða ógnað með því 24 sinnum, samanborið við 28 mál í ársfjórðungnum á undan.

Tafla/Ríkislögreglustjóri

Eðlilegt miðað við aðstæður

Spurð nánar út í þessi sjö skipti sem vopninu var beitt segir Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá embætti ríkislögreglustjóra, að allt hafi það verið tilvik þar sem eðlilegt þótti að rafvarnarvopni væri beitt miðað við aðstæður.

Ár er liðið síðan rafbyssur voru fyrst teknar í notkun hér á landi. Spurð út í reynsluna af þeim segir Rannveig hana góða og í samræmi við tölfræði erlendis frá.  

„Á sama tíma og er verið að innleiða þessi tæki og þeim bætt við tækjabeltið þá erum við líka að sjá fjölgun mála þar sem er alvarlegt ofbeldi og þar sem vopn eru á vettvangi þannig að við áttum allt eins von á því að þetta yrðu fleiri tilvik,” segir hún.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stuðningur almennings aukist 

Í dag munu Rannveig og Jónas Orri Jónasson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu flytja erindi á árlegu málþingi í Háskólanum á Akureyri sem ber yfirskriftina Löggæsla og samfélagið. Þar munu þau m.a. skoða viðhorf almennings til rafvarnarvopna. Stuðningur hefur aukist við notkun lögreglunnar á slíkum vopnum. Fer hann úr 51% í fyrra í rúmlega 62% í ár en þeim er ætlað að auka öryggi lögreglunnar og almennings. Vopnin eru á sama stigi í valdbeitingarstiganum og kylfa og varnarúði og gefa lögreglu aukna möguleika á að velja þann varnarbúnað sem hæfir hverju verkefni.

Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs ríkislögreglustjóra.
Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Lögreglan

Innt eftir ástæðunum fyrir þessum aukna stuðningi nefnir Rannveig að alvarlegum málum tengdum ofbeldi og vopnum hafi fjölgað í samfélaginu. Einnig mætti draga þá ályktun að almenningur upplifi að ekkert slæmt hafi komið upp á í tengslum við notkun lögreglunnar á rafvarnarvopnum hér á landi.

Mestur stuðningur við hnífaógn

„Þessi umræða erlendis frá hefur oft verið mjög neikvæð. Við höfum reynt að vera mjög opin og gegnsæ með innleiðinguna og fjölda tilvika og reynt eftir bestu getu að upplýsa strax, til dæmis um fyrstu beitinguna, og veita allar tölfræðiupplýsingar sem við mögulega getum,” svarar Rannveig.

Lögregluna heldur á rafvarnarvopni.
Lögregluna heldur á rafvarnarvopni. Skjáskot/Facebooksíða ríkislögreglustjóra

Hún nefnir einnig að mikill munur sé á því í hvaða aðstæðum almenningur telur eðlilegt að nota rafvarnarvopn. Mestur stuðningur er við tilfelli þegar hnífaógn er til staðar en minnstur þegar um börn er að ræða eða þegar einstaklingur fylgir ekki fyrirmælum lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert