„Mér þóttu viðbrögð stjórnvalda aldrei trúverðug og það kom strax í ljós í þinginu þegar ég og fleiri spurðum fjármálaráðherrann út í þetta. Hann fór undan í flæmingi og svo áttuðu menn sig á einhverjum tímapunkti á því að þeir þyrftu að sýnast vera að gera eitthvað. Þá var stofnaður þessi hópur sem einhverra hluta vegna fékk þetta kaldhæðnislega nafn „spretthópur“. Hann hefur augljóslega ekki tekið á sprett,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í samtali við Morgunblaðið.
Álits hans var leitað á þeirri stöðu sem upp er komin í atvinnulífi á Húsavík í kjölfar lokunar PCC Bakka, en fólk er farið að flytja úr bænum vegna stöðu atvinnumála. Fjöldi starfa tapaðist a.m.k. tímabundið vegna lokunar verksmiðjunnar. Starfshópur á vegum forsætisráðherra á að vinna tillögur að viðbrögðum stjórnvalda, en þær eru enn ekki komnar fram, þótt svo hafi átt að vera um miðjan september.
„Að ekki skuli vera neitt komið enn út úr þessari vinnu stjórnvalda finnst mér til marks um að hér sé um sýndarmennsku að ræða,“ segir Sigmundur Davíð.
Hann segir að viðbrögð stjórnvalda beri vott um tvennt, annars vegar tali ríkisstjórnin út í loftið og fullyrði eitt og annað, en efndirnar séu engar.
„Hitt sem ég hef áhyggjur af er að verið sé að nálgast Evrópusambandið út frá undirgefni,“ segir hann og vísar þar til hótana ESB um að setja lágmarksverð og leggja tolla á kísiljárn og tengdar vörur frá Noregi og Íslandi til ríkja ESB, sem stríði gegn EES-samningnum.
„Í skásta falli er þetta sinnuleysi og skilningsleysi gagnvart mikilvægi iðnaðar og í versta falli vilji til þess að rugga engum bátum gagnvart ESB,“ segir hann.
Hann kveðst vilja segja við það fólk sem á allt sitt undir öflugri atvinnustarfsemi á Húsavík að það eigi heimtingu á því að stjórnvöld standi með því og sýni það í verki.
„Það verður að tryggja fyrirtækinu eðlilega samkeppnisstöðu. PCC Bakki er lykilfyrirtæki í byggðarlaginu,“ segir Sigmundur Davíð.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
