Katrín Karlsdóttir, verkefnastjóri á þróunarsviði Náttúruverndarstofnunar, segir að Ísland þurfi ekki endilega að vera uppselt ef að álagi ferðamanna er stýrt rétt. Skoða mætti aðgangsstýringu að vernduðum svæðum líkt og tíðkast víða erlendis.
Salernisaðstaða við íslenskar náttúruperlur var útgangspunktur í erindi Katrínar, Þarf öll þessi klósett? Ferðamennska og forgangsröðun aðgerða í náttúruvernd, á loftslagsdeginum í Hörpu í dag.
Að loknu erindi sínu ræddi hún við blaðamann mbl.is um hvernig samræma megi náttúruvernd og móttöku þeirra rúmlega 2,5 milljóna ferðamanna sem spáð er að komi hingað til lands á næsta ári.
Er hægt að samræma öll þessi klósett sem þarf undir þennan fjölda ferðamanna og verndun ósnortinnar náttúru?
„Við erum með tæki og tól til þess að stýra álagi, þolmarkagreina og byggja upp þar sem þarf. Þannig að ég myndi segja að þetta sé vel hægt, en það þarf alveg að ákveða átak,“ segir Katrín.
Spurð hvort takmarka þurfi aðgengi að einhverjum náttúruperlum á Íslandi til að stuðla að verndun þeirra segir Katrín að vænlegt gæti verið að skoða einhvers konar álagsstýringu.
„Maður hefur heyrt frasann „Ísland er uppselt“. Það er kannski ekkert endilega þannig ef álaginu er stýrt rétt, eða stýrt þannig að hægt sé að takast á við álagið á þeim stöðum þar sem fólkið er,“ segir hún.
„Þetta gæti til dæmis verið spurning um tímaslott. Þú ert mögulega að stýra fólki inn á ákveðnar tímalínur, þannig að það fari ekki allir á klósettið klukkan tvö. Það geta einhverjir farið klukkan tvö og einhverjir klukkan þrjú og einhverjir klukkan fjögur á vissum stöðum. Það er alveg tækifæri til að stýra þessu án þess að takmarka.“
Í þessu samhengi bendir Katrín á að víða erlendis þurfi að bóka ákveðinn tíma til að heimsækja þjóðgarða og að það sé gott dæmi um álagsstýringu.
Annað sem Katrín ræddi í erindi sínu er mikilvægi þess að fræða ferðamenn og byggja Ísland upp sem sjálfbæran áfangastað.
„Þegar þú ert upplýstur almennur neytandi, sama hvort það er ferðamaður eða samfélagsþegn, þá ganga hlutirnir yfirleitt betur. Það er fullt af snertiflötum við ferðamennina og það er hægt að fræða þá á mjög mismunandi stigum,“ útskýrir Katrín.
„Dæmi er þegar maður kemur inn á hótel og sér límmiða inni á baðherbergi um að nota handklæðið oftar en einu sinni. Þetta er bara eitt lítið dæmi og það er alveg fullt af ferðaþjónustufyrirtækjum og aðilum sem eru að gera þetta vel. Það þarf bara að auka og bæta aðeins í.“