Ísland hefur tilkynnt uppfært landsákvarðað framlag sitt til Parísarsamningsins til ársins 2035. Aðildarríkjum samningsins ber að skila inn uppfærðum landsákvörðuðum framlögum um samdrátt í losun á fimm ára fresti.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu stjórnarráðsins en þar er útskýrt að landsframlag Íslands sé þrískipt.
Sett eru fram tvö töluleg markmið sem ná annars vegar til samfélagslosunar og hins vegar til losunar frá landi. Þá lýsa stjórnvöld áherslum til þess að ná fram samdrætti í losun frá staðbundnum iðnaði í svokölluðu ETS-kerfi.
Uppfært landsframlag Íslands er eftirfarandi:
Ísland skuldbindur sig til að ná fram 50-55% samdrætti í nettólosun gróðurhúsalofttegunda árið 2035 miðað við árið 2005, í þeim geirum sem eru nú skilgreindir í reglugerð um samfélagslosun, þar á meðal losun frá vegasamgöngum, orkuvinnslu, sjávarútvegi, landbúnaði og úrgangsstjórnun.
Ísland skuldbindur sig til að ná fram árlegum samdrætti í losun frá landi um 400-500 kt CO2 íg. árið 2035 miðað við árið 2025.
Auk þeirra tölulegu markmiða sem sett eru fram hér að framan, verður unnið að samdrætti í losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, með því að styðja við tæknilausnir til föngunar, hagnýtingar og niðurdælingar.
Í tilkynningu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem Ísland skili inn tölulegu markmiði vegna Parísarsamningsins um losun frá landi, og í fyrsta sinn sem sérstaklega er tilgreint hvernig Ísland ætli að stuðla að samdrætti í losunarheimildarkerfinu.
andsframlag Íslands nær yfir hagkerfi landsins í heild samanber 4. grein Parísarsamningsins, þar sem þessar þrjár meginstoðir loftslagssamstarfs við ESB taka til losunar allra geira og gróðurhúsalofttegunda.