„Það má segja að allir viðbragðsaðilar séu komnir í startholurnar eftir að Veðurstofan hækkaði sitt viðvörunarstig.
Þetta segir Runólfur Þórhallsson, sviðsstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is en sá tímapunktur er runninn upp að auknar líkur eru á eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni.
Neðri mörk kvikusöfnunar sem þarf fyrir kvikuhlaup eða eldgos eru 11 milljónir rúmmetrar og þeim var náð um nýliðna helgi.
„Það er hafinn undirbúningur fyrir næsta atburð og hann felst meðal annars í því að styðja við lögreglustjórann á Suðurnesjum varðandi það að allt sé klárt eins og rýmingaráætlanir og hvernig eigi að bregðast við eldgosi sem Veðurstofan segir okkur að verði trúlega á næstu dögum eða vikum,“ segir Runólfur.
Hann segir að viðbragðailar séu vel undirbúnir enda hefur gosið níu sinnum á Sundhnúkagígaröðinni frá því goshrinan hófst þar í desember 2023. Síðasta gos hófst 16. júlí og lauk 5. ágúst.
Fyrir liggur tillaga um hækkun varnargarðanna ofan við Grindavík á einum hluta þar sem hraun úr eldgosinu í apríl rann upp að görðunum. Lagt er til að hækka garðana um tvo metra á hálfs kílómetra kafla.
Málið er á borði dómsmálaráðherra og sagði Ari Guðmundsson, verkfræðingur hjá Verkís, við mbl.is í gær að beðið sé eftir því að tillagan verði samþykkt svo hægt verði að hefja framkvæmdirnar.
„Við erum í mjög góðu samtali við ráðuneytið varðandi þetta mál. Við metum það þannig að það væri skynsamlegt að hefja þessar framkvæmdir sem lagt er til að verði farið í,“ segir Runólfur.