Ásdís segir úrtak Vörðu allt of lítið

Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Kópa­vogs, segir niðurstöðu rannsóknar Vörðu ekki marktæka.
Ásdís Kristjáns­dótt­ir, bæj­ar­stjóri Kópa­vogs, segir niðurstöðu rannsóknar Vörðu ekki marktæka. Samsett mynd/mbl.is/Karítas

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, gefur lítið fyrir nýja rannsókn Vörðu sem bendi til óánægju meðal foreldra leikskólabarna með svokallað Kópavogsmódel í leikskólamálum. Ýmislegt í rannsókninni standist ekki skoðun og þá sé úrtakið það lítið að það teljist varla marktækt.

Kópavogsmódelið vísar til þeirra grundvallarbreytinga sem Kópavogsbær réðst í haustið 2023 á leikskólakerfinu. Sex tíma vistun er nú gjaldfrjáls í leikskólum Kópavogsbæjar en vistun umfram það felur í sér meiri kostnað en áður.

Rannsókn Vörðu fól í sér ítarleg viðtöl við 20 foreldra sem eiga börn á aldrinum 2 til 5 ára og eru búsettir í Kópavogi.

Rannsóknin ekki marktæk

„Þessi rannsókn er unnin af BSRB og þau hafa verið gagnrýnin á módelið hingað til. En mín helsta gagnrýni er hversu lítið úrtakið er. Það eru bara tuttugu manns sem taka þátt í þessari rannsókn þannig svörin eru því ekki marktæk miðað við hversu stórt sveitarfélagið er,“ segir Ásdís í samtali við mbl.is.

„Þá er ýmislegt fullyrt þarna sem stenst nú ekki alveg skoðun eins og t.a.m. að börn séu ekki fyrr en tveggja ára að komast inn á leikskóla en þá er vísað til ársins 2022 sem eru auðvitað gamlar tölur vegna þess að þetta er áður en við innleiddum Kópavogsmódelið og við erum núna að ná 13-14 mánaða börnum inn.“

Foreldrar upplifi betri þjónustu

Í rannsókn Vörðu segjast margir viðmælendur upplifa að kerfisbreytingarnar hafi fyrst og fremst verið gerðar út frá fjárhagslegum hvötum Kópavogsbæjar og ekki með velferð barna, starfsfólks og foreldra að leiðarljósi.

Svarar Ásdís að það sé alrangt að módelið hafi verið tekið upp sem sparnaðarleið. Kópavogsbær, rétt eins önnur bæjarfélög, greiði um 90% af raunkostnaði við rekstur leikskóla og hafi jafnframt verið skýr með að ef til hagræðinga kæmi, t.d. vegna betri nýtingar starfsfólks, myndi fjármagnið renna aftur til leikskólanna til að bæta starfsumhverfi sem og umhverfi barnanna.

„Það er alls ekki okkar tilfinning að það sé mikil óánægja með Kópavogsmódelið. Við höfum gert kannanir reglulega og erum að sjá það að ánægjan er að aukast. Einkum og sér í lagi vegna þess að foreldrar eru að upplifa að þjónustan sé betri. Við höfum t.a.m. aldrei þurft að loka leikskólum sökum manneklu eða veikinda og við erum að keyra núna á þriðja árinu með módelið.“

1.400 foreldrar hafi svarað síðustu könnun

Aðspurð um kannanir Kópavogsbæjar segir Ásdís að rúmlega 1.400 foreldrar hafi svarað síðustu könnun Kópavogsbæjar.

„Það blasir við í svona stóru sveitarfélagi að það er ekki hægt að draga miklar ályktanir út frá svona úrtaki, 20 manns.“

Áttu von á einhverju samtali við Vörðu eða einhvers konar framhaldi vegna rannsóknarinnar?

„Þetta var náttúrulega bara að koma í dag þannig ég ætla nú bara að bjóða þeim á fund. Ég vil sannarlega fara yfir þessa rannsókn og okkar athugasemdir og ég vonast til þess að við munum eiga gott samtal, en mér finnst nú mikilvægt að þegar farið er af stað í svona rannsókn að það sé tryggt að úrtakið sé það stórt að það sé marktækt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka