Að öllu óbreyttu getur barn þurft að bíða í allt að fjögur ár og hálft eftir greiningarferli hjá Geðheilsumiðstöð barna vegna gruns um ADHD.
Þann 9. september síðastliðinn biðu alls 2.498 börn eftir athugun hjá Geðheilsumiðstöð en 2.211 höfðu beðið lengur en í þrjá mánuði. Þar af 1.697 börn vegna gruns um ADHD með eða án einhverfu. 750 börn biðu eftir athugun vegna gruns um einhverfu og er meðalbiðtíminn þar 19,3 mánuðir.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í samantekt umboðsmanns barna á bið eftir þjónustu við börn. Börnum sem bíða eftir greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna hefur fjölgað töluvert frá því fyrst var kallað eftir upplýsingum um stöðuna árið 2021, en þá biðu 738 börn.
Þann 18. september síðastliðinn biðu alls 717 börn eftir þverfaglegri greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð, þar af 419 börn á aldrinum 0-6 ára. En það er hlutverk stofnunarinnar að tryggja að börn með alvarlegar þroskaskerðingar sem geta leitt til fötlunar síðar á ævinni, fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem bæta lífsgæði þeirra. Meðalbiðtíminn eftir greiningu er 25,7 mánuðir.
Þá biðu 35 börn eftir þjónustu göngudeildar Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL). Meðalbiðtími var 1,9 mánuður og sjö börn höfði beðið lengur en þrjá mánuði.
Er það mat umboðsmanns að stjórnvöld þurfi að grípa til aðgerða með það að markmiði að koma í veg fyrir að börn bíði eftir þjónustu sem þau þarfnast og eiga rétt á. Löng bið hafi verið viðvarandi vandamál til margra ára.
„Það er til að mynda ótækt að biðtími barna eftir heilbrigðisþjónustu samræmist ekki þeim almennu viðmiðum sem embætti landlæknis hefur sett um biðtíma en samkvæmt þeim á skoðun hjá sérfræðingi að fara fram innan 30 daga frá því að beiðni er lögð fram og meðferð að fara fram innan 90 daga frá greiningu,“ segir umboðsmaður barna í tilkynningu á vef sínum.
Þar segir jafnframt að börn börn eigi rétt á að þörfum þeirra sé mætt hvort sem formleg greining liggur fyrir eða ekki.
„Þá gera farsældarlögin ráð fyrir því að einstaklingsbundinn stuðningur sé veittur í samræmi við frummat á þörfum barns og formleg greining sé ekki forsenda stuðnings. Sá réttur dregur hins vegar ekki úr mikilvægi þess að börn fái nauðsynlega greiningu án þess að þurfa að bíða eftir henni í lengri tíma, enda er rétt greining forsenda þess að börn fái viðeigandi meðferð og stuðning.“