Ný rannsókn Vörðu sýnir mikla óánægju meðal foreldra leikskólabarna með svokallað Kópavogsmódel í leikskólamálum.
Kópavogsmódelið vísar til þeirra grundvallarbreytingar sem Kópavogsbær réðst í haustið 2023 á leikskólakerfinu. Sex tíma vistun er nú gjaldfrjáls í leikskólum Kópavogsbæjar en vistun umfram það felur í sér meiri kostnað en áður.
Rannsókn Vörðu fól í sér ítarleg viðtöl við 20 foreldra sem eiga börn á aldrinum 2 til 5 ára og eru búsettir í Kópavogi.
Að því er fram kemur í tilkynningu segjast margir viðmælendur upplifa að kerfisbreytingarnar hafi fyrst og fremst verið gerðar út frá fjárhagslegum hvötum Kópavogsbæjar og ekki með velferð barna, starfsfólks og foreldra að leiðarljósi.
Mikil óánægja sé einnig með fyrirkomulag skráningadaga og safnskóla. Á skráningadögum þurfi foreldrar sérstaklega að skrá börnin sín, sem sæki ekki sinn leikskóla eins og venjulega heldur sé safnað saman í tvo leikskóla í sveitarfélaginu sem eru opnir á þessum dögum.
Margir foreldrar sendi ekki börnin sín í leikskóla á þessum dögum nema í neyð og lýsi því að börnin upplifi streitu og óöryggi við að fara í ókunnugt umhverfi.
Kerfið er sagt henta sérstaklega illa foreldrum í verri félags- og efnahagslegri stöðu og eykur enn frekar bæði almennt álag og fjárhagslegt álag á þá hópa.
Gengið sé út frá því að foreldrar hafi gott félagslegt bakland, séu með sveigjanleika í vinnu eða í hlutastarfi, sem sé ekki raunveruleiki allra foreldra.
Þá tali margir viðmælendur um að breytingarnar hafi haft mun meiri áhrif á mæður en feður þar sem þær bæru í meira mæli ábyrgð á að bregðast við styttri vistunartíma.
Foreldrar lýsi líka togstreitu vegna álags á ömmur sem hlaupi undir bagga með fjölskyldum vegna breytinganna.
Margir foreldrar segist finna fyrir mikilli tímapressu og streitu við að samræma vinnu og fjölskyldulíf og að breytingarnar hafi aukið álagið.
Þeir foreldrar sem búi við sveigjanleika í vinnu finni líka fyrir auknu álagi eftir breytingarnar.