„Meirihluti borgarstjórnar kynnti í dag svokallaða Reykjavíkurleið í leikskólamálum. Leiðin veltir byrðunum duglega á vinnandi foreldra og felur í sér margvíslegar breytingar sem íþyngja munu fjölskyldum.“
Þetta skrifaði Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í Facebook-færslu þar sem hún gagnrýnir breytingu Reykjavíkurborgar í leikskólamálum.
„Leikskólagjöldin verða nú þau hæstu á höfuðborgarsvæðinu fyrir fólk sem ekki nýtur niðurgreiðslna, eða 66.774 krónur mánaðarlega fyrir fulla vistun. Það er 70% hækkun sem lendir hvað verst á millistéttinni enda afsláttarkjör takmörkuð við lágtekjuhópa,“ skrifaði hún.
Sambúðarmakar eða hjón sem skríði bæði rétt framúr lágmarkslaunum njóti engra afsláttarkjara.
Með breytingunni fái þeir foreldrar sem skrá börnin sín aðeins til kl. 14 á föstudögum 25% afslátt af leikskólagjöldum. Takmarkaður hópur í samfélaginu njóti styttri vinnuviku – aðallega opinberir starfsmenn – og óskiljanlegt sé að borgaryfirvöld skapi enn frekari ívilnanir fyrir hóp sem þegar njóti betri kjara en fólk á almennum vinnumarkaði.
Tillögurnar feli í sér margvíslega hvata til að draga úr vistunartíma leikskólabarna óháð aldri þeirra. Foreldrar á vinnumarkaði eigi margir erfitt með slíkar breytingar, ekki síst í tilfellum þar sem leikskólavist fæst ekki innan búsetuhverfis og foreldrar þurfa að ferðast langan veg að skutla og sækja börn sín.
Líkt og áður þegar borgin hefur skert leikskólaþjónustu, muni þessi breyting koma verst niður á vinnandi mæðrum, vaktavinnufólki, fólki af erlendum uppruna og öðrum með lítið bakland.
Þurfi foreldrar að nýta sér leikskólaþjónustu milli jóla og nýárs, í vetrarleyfum eða dymbilviku, þurfi að skrá slíkt sérstaklega í september og greiða 4.000 króna álag á leikskólagjöldin fyrir hvern dag.
„Það er ómöguleiki fyrir flesta foreldra að geta í september skipulagt álag og verkefni dymbilviku. Hér þarf meiri sveigjanleika,“ skrifaði Hildur.
Það sé mikilvægt að bæta náms- og starfsaðstæður í leikskólum Reykjavíkur. Tryggja verði börnum og starfsfólki heilnæmt skólahúsnæði og endurskipuleggja verði leikskólastarfið til samræmis við grunnskólann. Án starfsfólksins sé auðvitað ekkert leikskólastarf.
Bæta verði líka aðstæður barnafólks í Reykjavík. Fæðingartíðni hafi aldrei verið lægri hérlendis, fólk fresti barneignum og enn fleiri kjósi barnleysi. Fjölga verði því úrræðum sem grípi fjölskyldur í kjölfar fæðingarorlofs og tryggja samfélag sem styðji við frekari barneignir.
„Við þurfum ný daggæsluúrræði fyrir yngstu barnahópana, stóraukið samstarf við atvinnulíf og fleiri sjálfstætt starfandi leikskóla. Fjölbreyttari valkostir verða lykillinn að lausninni.“
Færslu Hildar má sjá hér að neðan.