Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, segir Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra sveitarfélagsins, ekki hlusta á foreldra leikskólabarna í bænum.
Ný rannsókn Vörðu var birt í dag og sýnir hún mikla óánægju meðal foreldra leikskólabarna með svokallað Kópavogsmódel í leikskólamálum.
Kópavogsmódelið vísar til þeirra grundvallarbreytinga sem Kópavogsbær réðst í haustið 2023 á leikskólakerfinu. Sex tíma vistun er nú gjaldfrjáls í leikskólum Kópavogsbæjar en vistun umfram það felur í sér meiri kostnað en áður.
Ásdís Kristjánsdóttir gagnrýndi stærð úrtaks rannsóknarinnar en rannsóknin fól í sér viðtöl við 20 foreldra sem eiga börn á aldrinum 2 til 5 ára og eru búsettir í Kópavogi. Sagði Ásdís í samtali við mbl.is að svör foreldranna væru ekki marktæk sökum þess hve stórt bæjarfélagið sé.
Sigurbjörg hefur tjáð sig um málið með færslu á Facebook þar sem hún segir úrtaksstærð vera stóra málið heldur að Ásdís skuli ekki hlusta á foreldra. Foreldrar hafi ítrekað lýst tímapressu, auknu álagi og samviskubiti eftir innleiðingu Kópavogsmódelsins.
„Rannsóknin sem vísað er til (og unnin er af sérfræðingum) er eigindleg og aðferðafræðilega vönduð: 20 slembivalin viðtöl eru eðlilegt umfang þegar markmiðið er að skilja hvernig kerfið bitnar á fjölskyldum,“ segir í færslu Sigurbjargar.
Ásdís sagði einnig í samtali við mbl.is að samkvæmt könnunum sem Kópavogsbær hafi lagt fyrir foreldra komi í ljós að ánægja foreldra sé þvert á móti að aukast. Nefndi hún jafnframt að rúmlega 1.400 foreldrar hafi svarað síðustu könnun Kópavogsbæjar.
„Fullyrðingu bæjarstjóra um að ánægja sé að aukast þarf að styðja með gögnum. Þangað til stendur eftir það sem foreldrar segja sjálfir: kerfið er stíft, skapar stöðuga pressu og hentar illa venjulegu fjölskyldulífi með útivinnandi foreldra. Kópavogsmódelið er ekkert annað en þjónustuskerðing og íbúar Kópavogs eiga skilið að bæjarstjóri hlusti á þá.“
„Það er bara þetta þrennt sem mér finnst mikilvægt: mér finnst alvarlegt að bæjarstjóri hlusti ekki þegar íbúar tala, könnunin er aðferðafræðilega rétt framkvæmd og fullyrðing hennar um aukna ánægju foreldra er ekki studd af gögnum,“ segir Sigurbjörg í samtali við mbl.is.
Þá bendir hún jafnframt á foreldra og forsjáraðilakönnun Kópavogsbæjar frá 2024 þar sem sjá má á glæru þrjú að 14% foreldra sögðust mjög ánægðir með breytingar á skipulagi og starfsumhverfi leikskóla barnsins síns. 16% sögðust mjög óánægðir.