Umboðsmaður barna segir það mikið áhyggjuefni hve mörg börn hafa haft stöðu sakbornings í ofbeldisbrotamáli það sem af er ári, en í lok júní höfðu 122 börn haft stöðu sakbornings í slíkum málum. Allt árið 2024 höfðu 150 börn stöðu sakbornings í ofbeldismálum.
Þá höfðu 12 börn haft stöðu sakbornings í kynferðisbrotamáli frá ársbyrjun og til loka júnímánaðar.
Þetta kemur fram í samantekt umboðsmanns á bið eftir þjónustu við börn, sem birt hefur verið á vef embættisins.
Bent er á að ofbeldisbrotamálum þar sem börn hafa stöðu sakbornings hafi fjölgað jafnt og þétt á síðustu tíu árum, en árið 2015 höfðu 74 stöðu sakbornings í ofbeldisbrotamálum.
„Þetta er alvarleg þróun og það er mikilvægt að stjórnvöld greini hvaða orsakir liggi þessari aukningu til grundvallar til þess að hægt sé að grípa til viðeigandi mótvægisaðgerða,“ segir í samantektinni.
Miðað við tölur frá lögreglunni í lok júní á þessu ári höfðu 110 börn stöðu brotaþola í ofbeldisbrotamáli og 40 börn stöðu brotaþola í kynferðisbrotamáli.
