Konur um allt land stíga á morgun stór, táknræn og raunveruleg skref í baráttunni gegn leghálskrabbameini. Þá leiða góðgerðarfélagið Lífskraftur og útivistarhópurinn Snjódrífur 100 kvenna Leggöngu í Kerlingafjöllum.
„Leggangan er ekki aðeins fjallganga heldur sterkt tákn samstöðu og samfélagslegrar ábyrgðar. Markmið hennar er að vekja athygli á því að leghálskrabbamein veldur enn dauðsföllum á Íslandi, þrátt fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir nær öll tilfelli með reglulegri skimun og bólusetningu,“ segir í tilkynningu.
„Við getum orðið fyrsta þjóð í heimi til að útrýma leghálskrabbameini, ef við tökum höndum saman. Með markvissu átaki sem nær til þeirra sem ekki hafa fengið bólusetningu, með aukinni vitund og samstöðu getum við tryggt betri framtíð fyrir íslenskar konur,“ segir Sirrý Ágústsdóttir, stofnandi Lífskrafts og Snjódrífa.
Yfir 100 konur taka þátt í Leggöngu í Kerlingafjöllum, þar sem gengið verður að Kerlingu undir leiðsögn Snjódrífanna. Einnig eru skipulagðar Leggöngur víða um land, í Ísafjarðardjúpi, Grundarfirði, Bíldudal, Norðfirði og Hvalfirði, þar sem öll eru velkomin að ganga saman í þágu heilsu og framtíðar íslenskra kvenna.
Nánari upplýsingar um Leggöngurnar er að finna á Facebook hópi LÍfskrafts.
