Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir drög atvinnuvegaráðherra til laga um breytingu á búvörulögum vera árás á íslenskan landbúnað.
Hann segir í færslu á Facebook- síðu sinni að frumvarpið ráðist sérstaklega á kúabændur.
„Ekki hægt að sjá annað en að hér en á ný verið að ráðast á hagsmuni landsbyggðarinnar í þetta skipti eru það m.a íslenskir kúabændur sem munu finna fyrir því. Ég get ekki séð betur að af þessu verður þá verða áhrifin mikil og slæm á íslenska kúabændur. Hagræðing hefur verið í það minnsta 3-4 milljarðar á ári sem bæði íslenskir neytendur og íslenskir bændur hafa notið,“ skrifar Njáll.
Í dag bárust drög að breytingum á búvörulögum inn á samráðsgátt frá atvinnuvegaráðuneytinu.
Njáll nefnir brottfall 71. gr. laganna sem dæmi um aðförina að íslenskum landbúnaði.
„Í drögum frumvarpsins er m.a lagt til að ákvæði 71. gr. búvörulaga um heimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu um framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér samstarf til að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða, verði felld brott 1. júlí 2027, en áðurnefnd grein var upphaflega sett með lögum 85/2004,“ segir hann.
Hann segir inntak frumvarpsins gera það að verkum að 71. gr. búvörðulaganna eins og hún er í dag, verði óþörf. Frumvarpið leggi þó áherslu á það að þeir sem starfað hafi á grundvelli 71. greinar verði veittur góður aðlögunartími til þess að geta gert breytingar til þess að gera starfað sem framleiðandafélag.
Hann segir margt í frumvarpinu sem nauðsynlegt sé að skoða betur og að fróðlegt verði að sjá hvert umræða um málið leiði á næstu vikum.