„Þetta er mikið högg fyrir tiltölulega lítið en öflugt samfélag og það er reynsla okkar landsbyggðarfólks í gegnum árin að atvinnulífið er oft byggt upp á fáum en sterkum fyrirtækjum og það verða mikil áhrif ef illa gengur,“ segir Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, í samtali við Morgunblaðið. Logi er jafnframt 1. þingmaður Norðurlandskjördæmis eystra.
Leitað var viðbragða hans við hinni alvarlegu stöðu sem uppi er í Norðurþingi, en kísilmálmverksmiðja PCC Bakka á Húsavík hefur hætt starfsemi um sinn a.m.k. Afleiðingarnar eru m.a. að fjöldi fólks hefur misst vinnuna, fólk er farið að flytja úr bænum og fjárhagslegt högg sveitarsjóðs er mikið.
Þingmenn kjördæmisins sem Morgunblaðið hefur rætt við undanfarna daga hafa lýst þungum áhyggjum yfir stöðu atvinnumála í Norðurþingi og kalla eftir markvissum viðbrögðum stjórnvalda. Þá hefur Aðalsteinn Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík, gagnrýnt meint áhugaleysi ríkisstjórnarinnar á að koma starfsemi PCC Bakka á Húsavík aftur af stað.
„Þetta mál lýtur að því að fyrirtækið telur sig standa höllum fæti gagnvart Kína sem stendur fyrir 70-80% heimsframleiðslunnar á kísil. Ráðherra er að skoða þau mál, en það er rétt að nefna að forsætisráðherra skipaði starfshóp undir forystu forsætisráðuneytisins sem er að vinna skýrslu um atvinnumál á svæðinu. Mér skilst að samtalið á milli starfshópsins og bæjaryfirvalda í Norðurþingi hafi verið mjög gott,“ segir Logi.
Þegar skipan starfshópsins var kunngjörð í júní sl. kom fram af hálfu forsætisráðuneytisins að starfshópurinn myndi skila tillögum sínum um miðjan september, en ekkert hefur þó spurst til þeirra enn.
Segir Logi að skv. sínum upplýsingum sé von á niðurstöðum hópsins í þarnæstu viku, þ.e. um miðjan október. Þar verði kynntar tillögur um hvernig áfallinu á Húsavík megi mæta.
„Nú veit ég ekki hvað mun koma frá starfshópnum, en eitt er víst að það þarf að horfa almennt og til lengri tíma á starfsskilyrði mjög víða á landsbyggðinni. Þar eru hlutirnir ekki með sama hætti og í hinu stærra þéttbýli, eins og á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, þar sem fjölbreytni er meiri í atvinnulífi. Við þurfum að fara að hugsa málin með öðrum hætti og búa landsbyggðinni almennt betri starfsskilyrði,“ segir hann.
„Vilji stjórnvalda stendur til þess að búa öllu landinu sómasamleg starfsskilyrði og atvinnustefnan sem lögð verður fram á næstu mánuðum miðar að því að búa til gæða- og hálaunastörf um allt land,“ segir Logi og nefnir að hann vilji ekki gera lítið úr hinu alvarlega ástandi sem skapast hefur í Norðurþingi. Hann segir að stjórnvöld eigi að vinna með sveitarfélaginu í að bregðast við ástandinu. Samtal sé gott á milli aðila og ýmsar tillögur til skoðunar.