Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna var sett í gærmorgun og er ljóst að skilaboð Sambands íslenskra sveitarfélaga til ríkisstjórnarinnar eru skýr: Þau kalla eftir undanþágu frá greiðslu virðisaukaskatts af innviðafjárfestingum og að gripið verði til aðgerða til þess að lækka fjármögnunarkostnað sveitarfélaganna.
Jón Björn Hákonarson formaður sambandsins opnaði ráðstefnuna með ávarpi þar sem hann lagði áherslu á ofangreint. Þá hvatti hann til aukins stafræns samstarfs sveitarfélaganna, til dæmis með samræmdum innkaupum. Þannig mætti auka skilvirkni og hagkvæma nýtingu fjármuna, sem myndi skapa sveitarfélögunum aukið svigrúm.
Undir lok ávarpsins vék Jón Björn orðum sínum að samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Hann benti á að þessir tveir armar hins opinbera væru samherjar í því að þjónusta íbúa og að samtal og samvinna þeirra væru lykilatriði í þeim efnum.
Erindi Sögu Guðmundsdóttur aðalhagfræðings sambandsins vakti mikla athygli en hún fjallaði um fjárfestingu sveitarfélaga – eða öllu heldur skort á fjárfestingu.
Saga vakti athygli ráðstefnugesta á því að fjárfesting sveitarfélaga hefur ekki rétt almennilega úr kútnum síðan efnahagshrunið dundi yfir árið 2008. Á sama tíma væri ástandi innviða sveitarfélaganna víða ábótavant.
Hún sýndi með gögnum hvernig Ísland var fyrir hrun í fararbroddi í fjárfestingum sveitarfélaga í samanburði við staðbundin stjórnvöld [ígildi sveitarfélaga] hvort heldur sem er á Norðurlöndunum eða innan Evrópusambandsins. Frá hruni hafi Ísland aftur á móti verið eftirbátur samanburðarlandanna.
Saga sýndi fjárfestingarferla úr fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna, sem allir eru niðurhallandi eftir því sem horft er lengra fram í tímann. Hún útskýrði að svo væri vegna skorts á fyrirsjáanleika í fjárfestingu sveitarfélaga. Setti hún það í samhengi við nýlegt erindi Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, á Iðnþingi, þar sem fram kom að félagsmenn teldu sig geta boðið um 10% lægra verð í innviðaverkefni ef fyrirsjáanleikinn væri meiri.
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, fjallaði um fjármögnunarkostnað sveitarfélaganna í erindi sínu.
Fram kom að álag á skuldabréf sveitarfélaganna væri 0,8% ofan á kjör ríkissjóðs. Fyrir Lánasjóðinn þýddi þetta vexti upp á 1,6 milljarða króna árlega umfram kjör ríkisins. Sum sveitarfélög fjármagna sig utan sjóðsins en ef litið er til heildarlántöku aðalsjóða sveitarfélaganna nam fjárhæðin 3 milljörðum króna hærri fjármögnunarkostnaði en á kjörum ríkissjóðs.
Kjör sveitarfélaganna eru ekki aðeins verri en ríkissjóðs. Óttar benti á að álag á sértryggð skuldabréf fjármálafyrirtækja væri umtalsvert lægra en álag á skuldabréf sveitarfélaganna.
Fram kom að ýmsar leiðir væru færar til að lækka fjármögnunarkostnað sveitarfélaganna. Þannig væri hægt að fella út ákvæði um nauðasamning úr lögum og Seðlabanki Íslands gæti lækkað eiginfjárhlutfall sveitarfélaga úr 20% í 0%. Benti Óttar á að Ísland og Noregur væru einu löndin í Evrópu þar sem sveitarfélög væru ekki með 0% eiginfjárhlutfall – og það stæði til bóta í Noregi.
Lengst væri gengið í þessa átt ef ríkissjóður lánaði einfaldlega sveitarfélögunum á sömu kjörum og ríkissjóðir njóta. Fyrir því væru fordæmi, ekki þyrfti að líta lengra en til nágranna okkar í Danmörku.
Í pallborðsumræðum í kjölfarið benti hagfræðingurinn Saga á að ef svo langt væri gengið þyrfti að hafa í huga hvað það myndi þýða fyrir sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaganna. Myndi slíkt þýða að ríkið færi að hafa skoðanir á því hvernig sveitarfélögin ráðstöfuðu lánsfé sínu?
Í pallborðsumræðum formanns sambandsins, Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra, og Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra, mátti heyra að þeim leist vel á hugmyndir að tæknilegum útfærslum til þess að lækka fjármögnunarkostnað sveitarfélaganna.
Hvað eftirgjöf af virðisaukaskatti við innviðafjárfestingar varðar voru þeir meira hikandi og vísuðu til þess að með því lækkuðu tekjur ríkissjóðs. Það samtal væri þó í gangi milli ríkis og sveitarfélaga.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
