Þjóðaröryggisráð kallað til fundar í dag

Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs, en auk hans eiga tveir aðrir …
Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs, en auk hans eiga tveir aðrir ráðherrar þar sæti, auk ráðuneytisstjóra og fleiri. mbl.is/Eyþór

Boðað hefur verið til fundar í þjóðaröryggisráði í dag, föstudag, en Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tilkynnti um fundarboðið að loknum ríkisstjórnarfundi sl. þriðjudag. Forsætisráðherra er formaður þjóðaröryggisráðs, skv. lögum þar um.

Þjóðaröryggisráð hefur einungis verið boðað einu sinni til fundar í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Lögin mæla fyrir um skipan þjóðaröryggisráðs en í því eiga sæti, auk forsætisráðherra, utanríkisráðherra, sem fer með utanríkis- og varnarmál, og dómsmálaráðherra, sem fer með málefni almannavarna. Þá getur ráðið kallað fleiri ráðherra til setu í því sé ástæða til. Ráðuneytisstjórar viðkomandi ráðuneyta eiga og sæti í þjóðaröryggisráði. Þá eiga ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar og fulltrúi Landsbjargar sæti í ráðinu. Einnig tveir alþingismenn, annar úr þingflokki sem skipar meiri hluta á þingi en hinn úr þingflokki minni hluta.

Metur ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum

Hlutverk þjóðaröryggisráðs er m.a. að hafa eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og er það jafnframt samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. Ráðið skal einnig meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni sem varða þjóðaröryggi.

Guðlaugur Þór Þórðarson sagði í viðtali við Morgunblaðið um sl. helgi að með miklum ólíkindum væri að ekki skyldi þegar vera búið að kalla þjóðaröryggisráð saman í ljósi válegra tíðinda frá Danmörku um að loka hefði þurft flugvöllum þar í landi vegna flugs óþekktra dróna. Lýsti Mette Fredriksen forsætisráðherra Danmerkur því yfir að þjóðin ætti í fjölþátta stríði af þeim sökum.

„Það sem skiptir mestu máli er öryggi og varnir Íslands,“ sagði Guðlaugur. Þjóðaröryggisráð væri sú stofnun sem við hefðum til að undirbyggja, samræma og gefa upplýsingar öllum þeim aðilum sem með þau mál fara. Búið ætti að vera að kalla þjóðaröryggisráð saman fyrir löngu þegar slík staða væri uppi sem raunin væri í nágrannalandi okkar.

Fyrir skemmstu kunngjörði ríkislögreglustjóri að kölluð hefði verið saman svokölluð „vástigsnefnd flugverndar“ í tilefni frétta af drónaflugi við Kastrup-flugvöll í Kaupmannahöfn og Gardemoen-flugvöll í Ósló. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að breyta vástigi vegna þessa.

Í tilkynningu ríkislögreglustjóra um téðan fund kom m.a. fram að í vástigsnefnd flugverndar ættu sæti fulltrúar Isavia, Samgöngustofu, flugrekstraraðila og Keflavíkurflugvallar, en til framangreinds fundar voru að auki boðaðir fulltrúar frá Landhelgisgæslunni og sérsveit ríkislögreglustjóra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert