Aðsend grein úr Morgunblaðinu:
Helsti styrkleiki íslensks samfélags hefur verið hátt atvinnustig og lítið atvinnuleysi. Það hefur einkennt velgengni okkar og skapað traust á framtíðina. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir óvenjulegum aðstæðum þar sem margir hafa misst atvinnu á stuttum tíma, miklu fleiri en við höfum átt að venjast.
Svo fátt eitt sé nefnt má vísa til uppsagna á Grundartanga, í sjávarútvegi og iðnaði tengdum honum, lokunar kísilversins á Bakka við Húsavík og falls Play með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Bak við tölur um atvinnuleysi er fólk af holdi og blóði. Atvinnumissir getur haft gríðarlega alvarleg áhrif fyrir einstaklinga og fjölskyldur, bæði efnahagslega og félagslega, og verður fyrir marga mikið áfall. Samfélagið í heild og stjórnvöld þurfa að sýna samkennd með þeim sem nú standa frammi fyrir þessum aðstæðum og ábyrgð með mótvægisaðgerðum.
Þrátt fyrir áföllin er ljóst að Ísland býr yfir fjölmörgum styrkleikum og tækifærum. Ef rétt er haldið á málum getum við skapað ný störf, byggt upp verðmætasköpun og tryggt að fólk fái störf sem nýta hæfileika þess. Við búum yfir miklum mannauði, orkuauðlindum, öflugum sjávarútvegi og ferðaþjónustu, ásamt heilnæmri matvælaframleiðslu sem byggir á hreinleika náttúrunnar og telst með því besta semþekkist í heiminum. Þetta eru hornsteinar sem við getum treyst á til að byggja sterka framtíð ef skynsamlega er staðið að málum. Atvinna fyrir alla, hefur verið og er eitt af grunngildum íslensks samfélags.
Margir hafa bent á að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar virðist fyrst og fremst snúast um auknar álögur á heimili og fyrirtæki. Slíkt er hvorki rétta leiðin til að efla atvinnulífið né til að tryggja fólki störf. Þvert á móti getur það dregið úr fjárfestingum og valdið þannig fækkun starfa. Þess vegna er mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist nú skýrt og ákveðið við. Hún þarf að leggja fram aðgerðir sem styðja við þá sem misst hafa vinnuna, hlúa að nýsköpun, efla atvinnu í öllum landshlutum og skapa umhverfi þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta treyst á stöðugleika og sanngjarnt rekstrarumhverfi. Framsókn hefur alltaf lagt áherslu á atvinnu og verðmætasköpun. Við höfum ítrekað lagt áherslu á samvinnu við lausn stærstu viðfangsefna samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur hins vegar kosið að fara aðra leið.
Í dag þurfum við raunhæfa nálgun, samvinnu allra hagaðila, til að snúa af braut vaxandi atvinnuleysis. Í dag þurfum við ekki stór orð, glansandi kynningar eða óraunhæf loforð. Við þurfum jarðbundin og raunsæ stjórnmál sem umfram allt veita fólki von um að betri tímar séu fram undan. Slík stjórnmál byggja á ábyrgð, samstöðu og því að setja fólk í forgang.
Þannig getum við tryggt að Ísland verði áfram samfélag þar sem velferð og lágt atvinnuleysi eru hornsteinar og framtíðin byggir á traustum grunni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
