Enginn vissi hvað þetta var

Frisbígolf fór á algjört flug eftir að völlur var settur …
Frisbígolf fór á algjört flug eftir að völlur var settur upp á Klambratúni. Síðan þá hafa rúmlega 7 vellir verið teknir í notkun árlega. mbl.is/Árni Sæberg

Um aldarfjórðungur er síðan fyrsti frisbígolfvöllurinn var settur upp hér á landi. Þróunin var nokkuð hæg fyrsta áratuginn en árið 2013 gerðist eitthvað og diskurinn fór að fljúga. Næstu 13 ár voru að meðaltali settir upp rúmlega sjö vellir árlega og áhugi almennings jókst gríðarlega. Í dag fara árlega um 100 þúsund manns, eða fjórðungur þjóðarinnar, allavega einn hring á slíkum velli og gerir þetta frisbígolf að einu vinsælasta almenningssporti hérlendis.

Birgir Ómarsson hefur verið í forgrunni þessarar útbreiðslu frá því að hann kom heim úr námi frá Bandaríkjunum árið 1996 þar sem hann hafði kynnst frisbígolfi. Hann hefur á þessum 30 árum komið með beinum eða óbeinum hætti að uppsetningu líklega flestra frisbígolfvallanna á Íslandi og hannað um helming þeirra. Þá stofnaði hann Íslenska frisbígolfsambandið árið 2005 og var formaður þess í tæplega tvo áratugi, eða þangað til ný kynslóð tók við keflinu og hélt áfram uppbyggingarstarfinu.

Í samtali við mbl.is segist Birgir enn fara allavega einn hring vikulega allan ársins hring og að hann sé hvað stoltastur af því hvernig frisbígolf hafi höfðað sterkt til almennings en einnig til hópa fólks sem hreyfðu sig áður lítið og voru ekki mjög félagslega sterkir. Á það ekki síst við ungmenni sem Birgir segir að séu langstærsti hópurinn sem noti frisbígolfvellina.

„Enginn sem spilaði eða vissi hvað þetta var“

Birgir segir að þegar hann kom heim úr náminu hafi hann tekið meðferðis nokkra frisbígolfdiska, en strax komist að því að það var enginn völlur til staðar hér. „Það var enginn sem spilaði eða vissi hvað þetta var.“

Hann hafði starfað mikið með skátahreyfingunni og fékk um aldamótin leyfi til að setja upp völl við Úlfljótsvatn og síðar hjá skátunum á Akureyri og í Gufunesi. Segist hann hafa reynt að draga fólk á þessa velli til að spila en áhuginn hafi verið nokkuð takmarkaður og þegar hann heimsótti Akureyri sá hann að völlurinn þar var lítið notaður fyrir utan viðburði sem hann stóð fyrir.

Hann áttaði sig fljótlega á að hann hefði líklega gert velli sem væru of erfiðir, því fólk sem prófaði fann sig sjaldnast og mætti því ekki aftur. Hann vildi því búa til léttari völl sem myndi vera ákveðinn stökkpallur fyrir óreynda spilara. Varð úr að hann gerði einn slíkan völl á Hamarkotstúni á Akureyri og hann sló nokkuð í gegn.

Í dag eru samtals 105 frisbígolfvellir á landinu.
Í dag eru samtals 105 frisbígolfvellir á landinu. Kort/folf.is

Straumhvörf eftir grínbækling frá Besta flokknum

Stóru vatnaskilin urðu hins vegar árið 2010. „Ég sá grínbækling frá Besta flokknum þar sem þau sögðust vilja breyta nafninu úr Miklatúni í Klambratún,“ rifjar Birgir upp. Hafði hann áður fengið heimsókn frá Finna og Svía sem höfðu mikla reynslu af uppbyggingu frisbígolfs í heimalöndum sínum. Þeir höfðu bent honum á að íslensku vellirnir væru allir talsvert úr alfaraleið þar sem enginn sæi þá. Heima fyrir legðu þeir áherslu á að byggja upp velli við framhaldsskóla og á vinsælum stöðum. Bentu þeir strax á að Klambratún væri frábær staðsetning fyrir svona völl.

Birgir segir að hann hafi því sent Jóni Gnarr, þáverandi borgarstjóra, bréf þar sem hann lagði til að setja upp völl á túninu til að glæða garðinn lífi. „Ég fékk svo fund með borgarstjóra og þó að hann hafi ekkert vitað hvað þetta væri þá kostaði þetta lítið og hann sló til,“ segir Birgir hlægjandi.

„Þetta sló strax í gegn. Völlurinn var miklu léttari og var staðsettur þar sem allir sjá. Þetta fer á algjört flug eftir að völlurinn er settur upp árið 2011 og svo í framhaldinu koma Fossvogur, Laugardalur og Efra-Breiðholt,“ segir Birgir. Bendir hann á að allir hafi á þessum tíma verið að jafna sig eftir hrunið og sveitarfélög haldið þétt um pyngjuna. Hins vegar hafi vellir sem þessir kostað lítið og mörg sveitarfélög slegið til. „Maður hefur verið gapandi síðan,“ segir hann um þróunina.

Birgir Ómarsson hefur verið í fararbroddi uppbyggingar á frisbígolfíþróttinni hér …
Birgir Ómarsson hefur verið í fararbroddi uppbyggingar á frisbígolfíþróttinni hér á landi í um þrjá áratugi. Hann segist sérstaklega stoltur af því hvernig frisbígolf hafi náð til ungra iðkenda sem annars voru lítið að fara út. mbl.is/Árni Sæberg

Völlur á innan við milljón

Sem dæmi nefnir hann að þumalputtareglan sé að það kosti um 100 þúsund að koma upp hverri körfu og víða úti á landi sé bara um að ræða staur ofan í jörðina og númer þar sem teigurinn er. „Þú getur sett upp 9 körfu völl fyrir um milljón,“ segir hann.

Hann tekur fram að þetta sé hins vegar grunngerðin og í dag horfi flestir til þess að hafa vandaðri teiga þannig að hægt sé að spila allan ársins hring, annaðhvort með gervigrasi eða hellum. Við það hækkar verðið aðeins. „Það er hægt að setja upp mjög flottan völl fyrir þrjár milljónir,“ segir Birgir, en bendir á til samanburðar að erfitt sé að setja upp flott rólusett eða róluvöll fyrir þessa sömu upphæð. „Öllum sveitarstjórnarmönnum finnst þetta ódýrt.

Um 77 þúsund taka hring á hverju ári

Um 500 manns eru í dag skráðir iðkendur hjá sambandinu og þar af eru um 150 mjög virkir þátttakendur. Þá eru haldin um 120 mót á ári, eða rúmlega tvö í hverri viku. Það er því nóg að gera fyrir þá sem hafa áhuga á frisbígolfi sem keppnisgrein.

Birgir segir að þó að það sé mjög gaman að sjá þetta stækka sem íþrótt, þá hafi hann alltaf litið á uppbygginguna fyrst og fremst sem almenningssport og lýðheilsumál þar sem almenningi gefist kostur á að fara hring sér til yndisauka.

Líkir hann þessu við sund eða að fara á skíði þar sem margir stundi slíkt, en fáir keppa. Gallup hefur meðal annars skoðað hversu margir stunda frisbígolf og síðustu ár hefur niðurstaðan verið að um 51,9% landsmanna 18-24 ára fara allavega einn hring á ári og 37,8% landsmanna 25-34 ára. Lækkar hlutfallið svo í eldri aldursflokkum.

Tölur Gallup ná aðeins til 18 ára og eldri, en Birgir segir að stór hluti þeirra sem fari hring séu ungmenni og börn. Segir hann að ef tölurnar séu teknar saman og einnig miðað við þáttöku 14-17 ára, sem sé nokkuð fjölmennur hópur þeirra sem spila, þá áætli sambandið að tæplega 20% landsmanna hafi spilað allavega einn hring á ársgrundvelli, eða um 77 þúsund manns.

Oft ungmenni sem eru lítið í íþróttum

Segir hann enda að frisbígolf hafi slegið í gegn hjá þessum hópi og dragi oft út hópa sem fara lítið út og hreyfa sig lítið. „Það er ekki mikið af ungu fólki sem ákveður að ganga Elliðavatnshringinn, en þarna er fólk að fara viljandi út að hreyfa sig,“ segir hann og bætir við að oft sameinist fjölskyldur um áhuga á sportinu. „Oft eru þetta krakkar sem voru ekki mikið í íþróttum en mættu og höfðu gaman af því að spila og vera í félagsskapnum.“

Þá segir hann að algengt sé að sjá vini og kunningja fara saman eftir skóla eða vinnu. Ekki þurfi mikla þekkingu eða hæfileika til að njóta þess að vera með. Grunndiskur kosti um tvö þúsund og svo er bara að mæta og kasta. Segir hann að það sé mjög lítill hjallur að komast yfir til að byrja. Hins vegar geti áhugasamir einnig farið á dýptina varðandi eðlisfræði og flugeiginleika út frá mismunandi diskum og köstum.

Í dag eru 105 frisbígolfvellir víðs vegar um landið. Birgir …
Í dag eru 105 frisbígolfvellir víðs vegar um landið. Birgir segir hvern sem er getað byrjað og að þröskuldurinn sé ekki hár til að ná ágætis tökum. Árni Sæberg

„Sá sem skemmtir sér best, hann vinnur“

Sjálfur fer Birgir reglulega í frisbígolf og segir að það sé allavega einu sinni í viku. Er hann með fastan „fundartíma“ í hádeginu á miðvikudögum með vinum sínum. „Þetta er skemmtilegasti fundurinn í hverri viku,“ segir hann hlægjandi. „Að fara út, spjalla og ekkert vesen. Sá sem skemmtir sér best, hann vinnur,“ segir hann og vísar í orð upphafsmanns frisbígolfsins.

Birgir segist mjög ánægður með stöðu frisbígolfs á Íslandi í dag. Hann er sjálfur stiginn til hliðar úr stjórn sambandsins og nýtt fólk er tekið við. „Ég er samt enn að aðstoða með uppsetningu valla,“ segir hann og bætir við að hann telji að mögulega væri hægt að bæta við um 20 völlum til viðbótar á landinu til að ná fullkominni dreifingu. Aðalmálið sé þó að bæta þá velli sem fyrir eru og gera þá að heilsársteigum.

Úlfljótsvatn í uppáhaldi

Hann tekur fram að þessi vegferð hefði aldrei tekist án allra þeirra sem komu að starfinu með honum í gegnum tíðina. Mestu máli hafi skipt að þar raðaðist inn mikið af skemmtilegu fólki sem gerði ferðalagið auðveldara og skemmtilegra. Öflugt lið leiði nú sambandið og hann hafi áhyggjulaus getað stigið til hliðar.

Að lokum er nauðsynlegt að spyrja Birgi hver uppáhaldsvöllurinn hans á landinu sé. Hann segist eiga erfitt með að velja, enda komið að mörgum flottum völlum. Upp úr standi þó fyrsti völlurinn á Úlfljótsvatni og svo sé nýr völlur við Ljósafoss við Úlfljótsvatn líklega flottasti völlur landsins, en hann var einmitt völlur númer 100. Þá segir hann Klambratún alltaf skemmtilegan völl í hjarta borgarinnar og hann fari reglulega í Laugardal og Fossvog líka. Hann segir Grafarholtsvöll svo vera erfiðasta völl landsins. Þegar hann fari fram hjá Hveragerði stoppi hann jafnframt oftast og taki hring þar.

Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að áætlaðu fjöldi þeirra sem fóru einn hring á ári væri um 100 þúsund. Hið rétta er samkvæmt Birgi að áætlað sé að um 77 þúsund manns fari einn hring eða fleiri hvert ár. Fréttin hefur verið uppfærð samkvæmt því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert