„Þetta var nú ósköp einfalt, hér var lítill kópur sem urtan hafði skilið eftir, þær skilja þá eftir þegar þær hætta að mjólka í þá,“ segir Þorgrímur Guðmundsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Lukkutanga ehf. sem heldur utan um selaströndina svokölluðu á jörðinni Ytri-Tungu á Snæfellsnesi.
Forsaga málsins er sú að ritstjórn Morgunblaðsins barst ábending um að þar á ströndinni hefði sést til ferðamanna að „pota í sel“ og fylgdi sögunni að landeigandi hygðist kanna málið.
Þorgrímur er umsjónarmaður staðarins og hefur veg og vanda af selaströndinni sem ferðamenn sækja árið um kring sér til yndisauka – og sumir raunar bara til að heimsækja kamar Þorgríms svo sem fram kemur hér síðar.
„Það voru einhverjir sem hafa bara verið að athuga hvort hann væri sofandi greinilega svo það var eitthvað verið að pota í hann,“ heldur Þorgrímur áfram og kveðst hafa tryggt dýrinu unga frið með því að koma fyrir aðgangshindrunum í kring. „Þegar hann var búinn að hvíla sig fór hann bara í sjóinn aftur svo þetta var ekkert óvanalegt en hér er allt merkt og fólk á að halda sig 50 metra í burtu, ekki að allir fari eftir því, það er nú bara eins og gengur með fólk,“ segir staðarhaldarinn frá.
Þorgrímur auglýsir staðinn ekki enda kostaði það nokkur símtöl að hafa uppi á honum og að lokum tölvupóst sem hitti í mark. Hann er spurður hvort aðdráttarafl selafjörunnar sé þar með sjálfsprottið.
„Já, það er eiginlega bara þannig. Nú er búið að leggja þarna einn og hálfan kílómetra af göngustígum og þarna eru komnar merkingar um að fólk fari til dæmis ekki út á skerin og láti sig flæða eins og hefur nú gerst,“ svarar Þorgrímur og bætir því við að hann hafi þó ekki sérstakt eftirlit með gestunum.
„Ég er hérna allan daginn á þeim árstíma sem hægt er að vera í einhverjum framkvæmdum, við erum náttúrulega búnir að vera í framkvæmdum hér í fjögur ár en nú er komið svolítið haust og farið að minnka það sem maður getur gert,“ segir hann og nefnir nýlegan kamar sem bráðnauðsynlegt þarfaþing á svæðinu.
„Við settum upp kamar hérna í sumar af því að það var mikil þörf á salernisþjónustu, það sást nú bara á því að hér voru mannaleifar úti um allt,“ segir framkvæmdastjórinn, „ég sé til þess að kamarinn sé sómasamlegur en dagsdaglega er hér engin viðvera, þetta er bara staður sem þú getur keyrt niður að og labbað um og skoðað – drukkið kaffi úti í náttúrunni ef þú tekur það með þér, hér er engin veitingasala.“
En þú ert með gjaldtöku er það ekki?
„Jú, það er rukkað fyrir svæðið og hér borga nánast allir, það eru örfáir sem ekki gera það og þá sendi ég bara reikning,“ segir Þorgrímur sem byggir slíka innheimtu á skráningarnúmerum bifreiða þeirra sem ekki gjalda kónginum það sem kóngsins er, eins og sagt er.
Aðspurður segir Þorgrímur umferð um svæðið alla daga ársins og að vetrarlagi moki hann og salti til að auðvelda klakklausa för fólks um svæðið. „Á veturna eru þetta langmest litlu rúturnar sem koma með ferðamenn úr bænum,“ segir hann en kveðst ekki halda utan um heimsóknartölur nema hvað fjölda bifreiða snertir.
„Ég eyði ekki krónu í auglýsingar, þetta auglýsir sig sjálft, hins vegar hef ég eytt mörgum peningum í að láta tæma kamarinn hjá mér, því þar er miklu meiri aðsókn en ég hefði nokkurn tímann getað ímyndað mér,“ segir Þorgrímur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Lukkutanga á Snæfellsnesi, að lokum og auðheyrt gegnum símann að hann brosir út í annað.