Fylgjast með Outlaws og Bandidos

Lögreglan hefur verið með viðbúnað við Auðbrekku í Kópavogi vegna …
Lögreglan hefur verið með viðbúnað við Auðbrekku í Kópavogi vegna samkoma á vegum Hells Angels. Ljósmynd/Aðsend

Lögreglan býst alveg eins við því að viðhafa sambærilegt eftirlit með öðrum mótorhjólasamtökum og viðhaft hefur verið með Hells Angels undanfarið.

Lögregla fylgist einnig með mótorhjólasamtökunum Outlaws og Bandidos sem hún telur að hafi fengið fullgildingu hér á landi.

„Þeir eru allir vanir þessu

Rannsóknarlögreglumaður sem meðal annars hefur haft með mál tengd mótorhjólasamtökum að gera segir í samtali við mbl.is að tilgangur eftirlitsins geti verið margþættur.

Segir hann þær aðferðir sem lögregla hefur viðhaft í tvígang með tveggja vikna millibili við höfuðstöðvar Hells Angels í Kópavogi vera þekktar erlendis.

„Þeir eru allir vanir þessu. Þeir sækja partý erlendis og undirgangast þar ákveðið eftirlit. Stundum er þetta meira að segja sett upp þannig að t.d. klúbburinn í Köben veit að lögregla muni hafa eftirlit með partýinu.

Þá er mönnum bara bent að aka ákveðna leið á staðinn og menn látnir vita að það verði eftirlit á þeim á leiðinni. Þeim sagt að þeir þurfi að ræða við lögreglumenn, gefa upp upplýsingar og allt þetta. Það eru allir meðvitaðir um þetta hér. Þetta er ekkert frábrugðið því sem gerist annars staðar.“

Getur ekki tjáð sig um hugsanlegar aðgerðir

Bendir rannsóknarlögreglumaðurinn einnig á að borið hafi á því að krakkar undir aldri hafi sótt ákveðnar slíkar samkomur. Eftirlitið sé einnig liður í því að stoppa krakka sem eru kannski átján eða nítján ára og ætla sér að fara þarna.

„Um er að ræða skilgreind skipulögð brotasamtök erlendis og þetta er bara ósköp eðlilegt eftirlit með því.“

Stendur til að fara í eftirlit um helgina, sambærilegt því sem farið hefur verið í undanfarið við höfuðstöðvar Hells Angels í Kópavogi?

„Ég get ekki tjáð mig um hvort það verði eða hvað.“

Aðeins fullgildir bera merkin

Aðspurður segir rannsóknarlögreglumaðurinn ekki eingöngu Íslendinga vera liðsmenn í þessum hópum og bendir á að talsmaður Hells Angels á Íslandi, Endijs Vanags, sem kom nýlega fram í fjölmiðlum sé fullgildur meðlimur miðað við þau merki sem hann ber á sér.

„Það ber enginn þessi merki eitt prósent og Hells Angels á sér án þess að vera fullgildur meðlimur þannig að það segir sig sjálft.“

Hvað þýða þessi merki?

„Eitt prósent, sko fyrst þegar þessir hópar verða til, þá er haft eftir yfirmanni lögreglu í Bandaríkjunum að 99 prósent mótorhjólamanna séu löghlýðnir borgarar.

Þá fóru glæpagengi, Outlaws, Hells Angels og fleiri að merkja sig eitt prósent af því að þeir lifa ekki eftir lögum samfélagsins.“

Segir hann fullgilda liðsmenn Hells Angels hafa verið hér á landi um árabil og það sama gildi um Outlaws og Bandidos.

„Þú veist að þó Hells Angels séu núna undir eftirliti hjá okkur eru fleiri erlendir glæpahópar – Svona MC hópar eins og við köllum þá eða mótorhjólagengi.

Þessi hópur fer stækkandi. Þrír helstu klúbbarnir, eru Outlaws, Bandidos og auðvitað Hells Angels. Svo eru þeir allir með einhverja stuðningsklúbba.

Við erum ekkert að taka einhvern einn klúbb fyrir. Þetta er bara eftirlitið núna og kannski eftir tvær vikur verðum við mætt fyrir framan annan klúbb.“

Auglýsing fyrir opið hús Vítisengla.
Auglýsing fyrir opið hús Vítisengla. Skjáskot/Facebook

Með PR-deildir eins og aðrir

Liggur ástæðan fyrir þessu áberandi eftirliti nú fyrst og fremst í þessum partýum?

„Það geta verið mismunandi ástæður en okkur finnst fullt tilefni til þess að hafa eftirlit með því þegar þessi partý eru haldin.“

Lögregla hefur að sögn rannsóknarlögreglumannsins ýmsar upplýsingar um liðsmennina og segir hann að þeir hafi að einhverju leyti komist í kast við lögin.

Segir hann að ef liðsmaður sé uppvís að lögbroti neiti hann almennt fyrir að það tengist klúbbnum á nokkurn hátt.

„Þeir eru að reyna að laga sína ímynd gagnvart yfirvöldum og almenningi. Það er verið að banna þessa klúbba vítt og breitt um Evrópu og það er bara ákveðin PR-vinna í gangi hjá þeim, alveg eins og annars staðar. Þeir eru með PR-deildir eins og aðrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert