Hrindir af stað söfnun á eigin spýtur

Stefanía Tara stendur að baki söfnuninni.
Stefanía Tara stendur að baki söfnuninni. Samsett mynd/Aðsend

Nú er Bleikur október genginn í garð á ný og í tilefni þess hefur Stefanía Tara Þrastardóttir hrint af stað umfangsmikilli söfnun fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON).

Móðir Stefaníu stóð lengi í baráttu við krabbamein og var stuðningur KAON ómetanlegur að hennar sögn. 

„Mamma var lengi að berjast við illvígt krabbamein en hefur nú verið krabbameinslaus lengi," segir Stefanía í samtali við mbl.is.

„Þau hjálpuðu okkur gríðarlega mikið, bæði fjárhagslega og andlega, svo mér fannst bara galið að hafa þau ekki í huga núna í október," bætir hún svo við.

Söfnunin fer fram á Facebook- og Instagramsíðu Stefaníu þar sem ýmiskonar varningur er til sölu.

Allur ágóði sölunnar rennur svo til styrktar KAON.

Viðbrögðin vonum framar

Viðbrögðin við söfnuninni hafa verið draumi líkust að sögn Stefaníu og mikil eftirspurn hefur myndast á fyrstu dögum mánaðarins.

„Fólk er að taka alveg ofboðslega vel í þetta," segir hún.

Söfnunin stendur yfir til 31. október og verður Krabbameinsfélaginu afhentur ágóðinn þann 1. nóvember næstkomandi.

Pantanir á vörum fara fram í athugasemdum á Facebook- og Instagramsíðu Stefaníu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka