Það stefnir í að árið 2025 fari í annála sem eitt mesta góðviðrisár síðan mælingar hófust hér á landi.
Í nýbirtu tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur fram að í Stykkishólmi hefur meðalhiti janúar til septembermánaða aldrei mælst eins hár, en hann var 6,5 stig.
Í Stykkishólmi hafa mælingar verið gerðar samfellt síðan 1845, eða í heil 180 ár.
Meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins í Reykjavík mældist 7,0 stig, sem er 1,0 stigi yfir meðallagi 1991-2020 og jafnframt síðustu tíu ára. Meðalhitinn það sem af er ári raðast í 4. hlýjasta sæti á lista 155 ára.
Á Akureyri mældist meðalhiti janúar til september 6,5 stig, sem er 1,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991-2020 og 1,1 stigi yfir meðallagi undanfarins áratugar. Þar raðast meðalhiti fyrstu níu mánaða ársins í 3. hlýjasta sæti á lista 145 ára.
Í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar kemur enn fremur fram að nýliðinn september var hlýr á landinu öllu. Austan- og suðaustanáttir voru ríkjandi í mánuðinum. Sérlega úrkomusamt var á Austfjörðum og á Ströndum og þar var mánuðurinn víða með blautari septembermánuðum sem vitað er um.
Meðalhiti septembermánaðar var 9,3 stig í Reykjavík. Það er 0,7 stigum yfir meðallagi september árin 1991-2020 og 0,8 stigum yfir meðallagi undanfarins áratugar.
Á Akureyri var meðalhitinn 8,7 stig, sem er 0,7 stigum yfir meðallagi 1991-2020 og 0,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðarins var 8,9 stig í Stykkishólmi og 9,8 stig á Höfn í Hornafirði.
Eins og fyrr segir var sérlega úrkomusamt á Austfjörðum og á Ströndum í nýliðnum september.
Á Dalatanga mældist úrkoma mánaðarins 399,6 millimetrar (mm), sem er meira en tvöföld meðalúrkoma í september og sú næstmesta sem mælst hefur þar í septembermánuði frá upphafi mælinga 1938. Úrkoma mældist meiri í september 1951 (429,8 mm).
Úrkoman mældist líka óvenjumikil á sjálfvirku veðurstöðvunum á Austfjörðum, t.d. á Fáskrúðsfirði 560,2 mm og í Neskaupstað 472,6 mm, sem er með mestu septemberúrkomu sem þekkist á þeim stöðvum.
Úrkoman á Litlu-Ávík á Ströndum mældist 243,8 mm, sem er langt umfram meðallag þar og mesta septemberúrkoma sem mælst hefur frá upphafi mælinga árið 1995.
Úrkoma í Reykjavík mældist 94,4 mm í september, sem er um 10% umfram meðalúrkomu áranna 1991-2020.
Á Akureyri mældist úrkoman 77,5 mm, sem er um 45% umfram meðalúrkomu áranna 1991-2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 95,0 mm, sem er 22% umfram meðallag.
Þegar litið er til fyrstu níu mánaða ársins hefur heildarúrkoma ársins hingað til mælst 670,8 mm í Reykjavík, sem er 10% umfram meðallag heildarúrkomu janúar- til septembermánaða árin 1991-2020.
Á Akureyri mældust 397,4 mm, eða um 25% meiri úrkoma en að meðallagi sama tímabil þar.
Vætutíðinni fylgdu talsverðir vatnavextir, skriður og grjóthrun.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
