Niðurstaða slysatalningar við gatnamótin á mótum Höfðabakka og Bæjarháls sýnir að eitt alvarlegt slys varð þar árið 2016, þegar bifreið á leið suður Höfðabakka var beygt til hægri í veg fyrir annað ökutæki. Það slys varð norðan gatnamótanna, en ekki á gatnamótunum sjálfum. Árið 2022 var ekið á hjólreiðamann á akbraut u.þ.b. 50 metrum vestan við gatnamótin á götunni Straumi í Ártúnsholti. Algengustu umferðaróhöppin á þessum gatnamótum eru aftanákeyrslur þar sem ekki verða meiðsli á fólki.
Þetta kemur fram í svari Samgöngustofu vegna fyrirspurnar Morgunblaðsins um fjölda slysa á gatnamótum við Höfðabakka þar sem gatnamótum hefur verið breytt og umferðarljós endurnýjuð fyrir 180 milljónir.
Í svari Samgöngustofu kemur jafnframt fram að gatnamótin eru í 14. sæti af nokkur hundruð gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu hvað varðar flest slys og óhöpp. Á gatnamótunum eru að jafnaði tæplega 16 slys eða óhöpp á ári og innan við 1 slys á ári með litlum meiðslum.
Framkvæmdirnar á Höfðabakka snúa að endurnýjun umferðarljósa á Höfðabakka, við Bæjarháls, Vesturlandsveg, Bíldshöfða, Dvergshöfða og Stórhöfða. Samhliða er komið fyrir leiðilínum, varúðarhellum, staðsetning stólpa löguð þar sem á þarf að halda, miðeyjur lagaðar þar sem þær voru of mjóar og hægribeygju-framhjáhlaup fjarlægð þar sem tilefni þótti til og það var hægt.
Tilboðið í verkið hljómaði upp á rúmlega 145 milljónir kr., sem er 60% af kostnaðaráætlun og er áætlaður heildarkostnaður með hönnun, umsjón og eftirliti 170-180 milljónir. Ríkið kostar hluta framkvæmdarinnar í samræmi við samkomulag um skilavegi frá 2022.
Ástæða framkvæmdarinnar er sögð vera til að auka umferðaröryggi allra vegfarenda, án þess að þrengja að bílaumferð. Ekki hefur komið fram hvort slysatölur frá Samgöngustofu voru lagðar til grundvallar þegar ákvörðun um framkvæmdir var tekin.
Breytingar voru teknar fyrir og samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 26. mars 2025, en eins og fram hefur komið var greiningarskýrsla sem unnin var af Cowi verkfræðistofu ekki lögð fyrir ráðið en þar kom fram að leiðin sem valin var myndi lengja biðraðir og ferðatíma.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
