Ung börn utan skóla í tvö ár: „Grafalvarleg staða“

Skóli án aðgreiningar er ekki að virka sem skyldi að …
Skóli án aðgreiningar er ekki að virka sem skyldi að mati Söru, og þarf ýmislegt að breytast svo það verði. Samsett mynd/Eyþór/Aðend

​Dæmi eru um að ung börn á grunnskólaaldri hafi verið utan skólaúrræðis í allt að tvö ár vegna þess að almennir skólar geta ekki boðið þeim þann stuðning og þjónustu sem þau þurfa og þau fá ekki inni í sérskólum. Það getur verið grafalvarlegt og jafnvel lífshættulegt ef réttu úrræðin eru ekki fyrir hendi. Börn geta jafnvel komið vanvirk úr grunnskóla og í hálfgerðri kulnun.

Þetta segir Sara Rós Kristinsdóttir móðir tveggja barna, sem heldur úti síðunni Lífsstefna á samfélagsmiðlum þar sem hún fjallar um og vekur athygli á málefnum einhverfra, ADHD, geðheilsu og sýnir frá sínu daglega lífi.

Sara stýrir einnig hlaðvarpinu 4. vaktin ásamt Lóu Ólafsdóttur en Lóa hefur unnið bæði í almenna skólakerfinu og í sérskóla. Þær fjalla mikið um skólamálin og þá sérstaklega skólamál þeirra barna sem þurfa auka stuðning af einhverjum ástæðum.

Sara á sjálf barn sem var utan skólaúrræðis í næstum eitt ár, en hún stofnaði hópinn Skólamálin okkar á Facebook svo foreldrar, kennarar og annað fagfólk gætu talað saman og unnið saman að lausnum.

 „Þegar ég fór að tala um skólamál barna sem passa ekki inn í þetta svokallaða box þá fór ég að fá símtöl og skilaboð frá foreldrum sem ég upplifði að væru oft í mikilli örvæntingu hvað varðar stöðu barna sinna. Ég fann fljótlega að staðan er mjög alvarleg hjá hópi barna sem skólakerfið er ekki að ná að mæta.

Oftast hefur það ekki með kennarana sjálfa að gera heldur vantar meiri stuðning heilt yfir og oft er þörf á að hafa námið einstaklingsmiðaðra. Viðkomandi barn á oft erfitt með að vera í stórum hópi. Það vantar fjölbreyttari þekkingu inn í skólakerfið og fleiri fagaðila sem koma að máli viðkomandi barns innan skólans,“ segir Sara.

Foreldrar geta ekki verið útivinnandi

Það sem hefur komið henni mest á óvart er að ákveðinn hópur barna lendir algjörlega utan kerfis, eins og hún orðar það. Í því samhengi þykir henni áhugavert að skoða hvort auðveldara væri að vinna í málum þessa hóps ef hugtakið skólaskylda væri tekið úr reglugerð og fræðsluskylda sett þar í staðinn.

„Þegar ég tala um börn utan kerfis þá meina ég bókstaflega ekki í neinu skólaúrræði og þá börn á öllum stigum grunnskóla. Ég hef staðfestingu á því að það eru allt upp í tvö ár sem barn hefur verið utan kerfis eða með engin skólaúrræði. Þetta hef ég beint frá fagaðila sem starfar með börnum og fjölskyldum.“

Slík staða sé grafalvarleg. Börnin eru þá heima og foreldrarnir í þeirri stöðu að geta ekki verið útivinnandi. Segir hún foreldrahóp barna með ósýnilega fötlun, eins og taugaþroskaraskanir og þroskahömlun, eiga í einni mestri hættu á að lenda í alvarlegri kulnun.

„Þessi staða er alveg ómöguleg fyrir foreldra og fólk er misvel statt með stuðning, fjárhag og stöðu í lífinu. Þannig lenda margir í þessum hópi í gríðarlega erfiðari stöðu.“

10 ára án skólaúrræðis

Sara þekkir af eigin raun að þurfa að vera með barnið sitt heima í slíkum aðstæðum.

„Við vorum sjálf í þeirri stöðu með okkar barn sem er einhverft með væga þroskahömlun og ADHD, að vera um það bil eitt ár utan kerfis með engin skóla úrræði, þá 10 ára gamalt. Af því barninu var synjað um þau sérúrræði og sérskóla sem við sóttum um og við fengum þau svör frá almennum skólum að ef hverfisskólinn gæti ekki mætt hans þörfum þá gætu þeir það ekki heldur.“

Eftir langa baráttu fengu þau svo jákvætt svar frá einum almennum skóla, þar sem vilji var til að koma til móts við þarfir drengsins og veita honum þann stuðning sem hann þarf. Að sögn Söru voru þau heppin.

„Þá bendi ég á að þetta á ekki að snúast um heppni. Við erum samt í mjög erfiðri stöðu. Öll hans skólaganga hefur verið þannig að það er búið að búa til áfall. Þegar börn eiga nokkur erfið ár í skóla, þá verða oft til svo mörg áföll.“

mbl.is/Karítas

Börn eigi ekki að þurfa að vera heppin 

Þá segir hún hætt við því að foreldrar barna sem sitji mestmegnis í námsveri á skólatíma og taki kannski lítið þátt í bekkjarstarfinu, einangrist. Börnin eru ekki hluti af barnahópi og fyrir vikið verða foreldrarnir síður hluti af foreldrahópi.

„Þú tilheyrir engu, en barninu myndi samt ekki líða betur í stóra bekknum. Þetta er mjög skrýtin staða. Þannig þetta er það besta í stöðunni oft miðað við það sem stendur til boða. Mér finnst samt eiginlega ekki hægt að segja að þetta sé skóli án aðgreiningar og ég er sannfærð um að sum börnin upplifi sig öðruvísi en hin. Spyrja sig af hverju þau séu annars staðar. Sérstaklega þar sem námsverin eru ekki mjög öflug og þá eru bara örfá sem fara alltaf til hliðar,“ útskýrir Sara.

Hennar barn hefur einungis verið í námsveri í nýja skólanum, en hún veit að sumir skólar eru alls ekki með virk námsver.

Sara segir mjög erfitt að skólamálin heyri aðeins undir mennta- og barnamálaráðuneytið því það sé mikilvægt að fleiri ráðuneyti komi að. Þannig megi betur vinna að heildrænum lausnum. Ekki sé hægt að hunsa þá staðreynd að þau börn sem fá ekki nægilegan stuðning í skólakerfinu eru gjarnan sami hópur og þarf á þjónustu geðheilbrigðiskerfisins að halda.

Hún spyr sig hvort það sé almennt verið að ná snemmtækri íhlutun hjá þessum börnum, en miðað við það sem hún heyrir er það ekki alltaf raunin og það var alls ekki raunin varðandi hennar barn.

„Skólar virðast vera misgóðir í að grípa inn í með stuðning áður en það kemur fullnaðargreining, en barn á ekki að þurfa að vera heppið með það.“

Ein hugmyndin væri að öll börn fengju fræðslu um fjölbreytileika …
Ein hugmyndin væri að öll börn fengju fræðslu um fjölbreytileika og að lögð væri áhersla á félagsfærni fyrir öll börn. mbl.is/Hari

Lítið breyst til batnaðar á síðustu árum 

Sara segist hafa tekið umræðuna við fjölda foreldra og fagaðila og einnig átt fundi í ráðuneytum og segir alltaf sömu atriðin koma fram.

„Eins og hvernig á kennari með 20 manna bekk líka að ná að sinna sérkennslu. Auðvitað getur kennari haft ákveðna yfirsýn og grunnþekkingu utan kennaramenntunar en kennari getur ekki gert allt. Það eru mjög margir sem hafa bent á að það sé mikil þörf á fleira fagfólki inn í skólana. Það er fagfólk úr öðrum stéttum inni í skólunum og það hefur jafnvel aukist. En það er þó ennþá mikil vöntun og það fagfólk sem er þar inni nær oft aðeins að sinna lítilli prósentu af þeim sem þyrfti að sinna.“

Á laugardaginn stigu tvær mæður fram í viðtali í Morgunblaðinu og mbl.is sem misstu börnin sín í sjálfsvígi á þessu ári. Þær sögðu báðar að skólakerfið hefði brugðist börnunum þeirra, sem ítrekað voru tekin til hliðar og geymd á skrifstofum eða öðrum rýmum því engin úrræði buðust. Börnin voru greind með taugaþroskaraskanir, meðal annars ADHD og einhverfu og áttu frá upphafi erfitt uppdráttar í almennum skólum sem þau gengu í.

Sara kannast vel við þessar lýsingar á því hvernig skólar telja sig vera að leysa vanda barnanna með því að taka þau út úr hópnum og geyma þau þar sem þau trufla ekki aðra. Hún telur lítið hafa breyst til batnaðar á síðustu árum hvað úrræði fyrir þessi börn varðar.

„Nei mér finnst það ekki. Ég veit ekki hvort það sé hart af mér að segja þetta svona. Barnavernd á að koma inn í mál ef það er skólasóknarvandi eða ef skólamál eru mjög erfið, en þau aðhafast ekki neitt. Það er mín reynsla og annarra, að þau koma raunverulega ekki inn í málin,“ segir Sara. Það sé ekki gert nema ýmis konar annar vandi sé til staðar.

Dæmi eru um að ung börn séu utan skólaðurræðis í …
Dæmi eru um að ung börn séu utan skólaðurræðis í lengri tíma. Morgunblaðið/Karítas

„Fólk verður að átta sig á alvarleika málsins“

Hún sér þó allavega eina jákvæða breytingu. „Mér finnst margir kennarar vera tilbúnir að taka umræðuna. Mér finnst það mjög jákvætt. Það er mögulega einhver vakning. En þarna komum við aftur inn á að það er ekki endilega kennarana og það þarf eitthvað að styðja við kennarana,“ bendir hún á.

„Eins og okkar strákur, í fyrsta til fjórða bekk, þá var allan tímann vitað að hann þyrfti maður á mann stuðning, en hann fékk aldrei stuðninginn. Það voru tveir kennarar með mjög stóran bekk en annar þeirra var nánast alltaf með mitt barn. Báðir kennarar í þessu tilfelli voru tilbúnir að gera allt sem í þeirra valdi stóð. En þetta gengur ekki upp í mínum huga þá gagnvart barninu og kennurum.”

Sara hefur heyrt frá foreldrum barna sem glímdu við erfiðleika í skólanum og fengu ekki stuðning eða úrræði við hæfi og leiddust síðar út í fíkniefnaneyslu og hafa glímt við alvarlegt þunglyndi og verið í sjálfsvígshættu.

„Fólk verður að átta sig á alvarleika málsins. Þetta er grafalvarleg staða og lífshættuleg fyrir ákveðin hóp einstaklinga og við verðum að líta á það þannig. Það er ekki hægt að segja að maður sé að vera dramatískur því þetta er raunverulega staðan. Þetta eru börnin sem treysta sér oft ekki í framhaldsskóla því þau hafa svo slæma reynslu úr grunnskóla.“

Ótrúlegar breytingar eftir dvöl í sérskóla

Hún segir börnin oft verða vanvirk eftir grunnskólann og í hálfgerðri kulnun. Sérskólar eins og Brúarskóli og Arnarskóli geti skipt sköpum fyrir börn sem þessi. En erfitt er að komast þar að.

„Það eru svo margir sem segjast ekki vilja sérúrræði því það sé svo gamaldags og ég skil pælinguna. Draumurinn er alltaf að það sé inngilding en það þarf að geta verið val. Þegar hitt virkar ekki þá er það svo mikilvægt.“

Foreldrar lýsi gjarnan ótrúlegum breytingum og framförum hjá börnum sem hafa verið færð úr almennum skóla í sérskóla. Þar hafi börnin fengið þann stuðning sem þau þurftu í umhverfi sem hentaði, en samt verið hluti af heild.

„Sem sýnir því miður að almennu skólarnir ná oft ekki að grípa börnin eins og þarf. Ef þetta á að vera skóli án aðgreiningar þá þurfum við að taka tillit til barna sem þurfa meiri aðstoð og meiri stuðning. Við megum heldur ekki fara í vörn þegar þessi umræða er tekin og að benda á hvort annað. Starfsfólk skóla, foreldrar og þeir sem starfa í þessum málaflokki verða að vinna saman, annars miðar okkur ekki áfram í þeirri vinnu að bæta kerfið fyrir þennan nemendahóp. Þá þarf að tryggja að hver skóli sé með öflugt námsver, skynjunarrými, að þetta sé aðgengilegt og að börnunum finnist þau samt tilheyra.“

Morgunblaðið/Karítas

Kemur verst út fyrir „ósýnilegu miðjuna“ 

Ein hugmyndin væri að öll börn fengju fræðslu um fjölbreytileika og að lögð væri áhersla á félagsfærni fyrir öll börn.

„Ekki bara kenna börnum sem eru skynsegin (Neurodivergent) að umgangast taugatýpísk börn“ segir Sara.

„Skóli án aðgreiningar stefnan er að koma verst út fyrir einhverf börn, börn með ADHD eða með mikla lesblindu. Þessi hópur sem fellur á milli kerfa, og á ensku er stundum talað um the „invisible middle“ eða ósýnilegu miðjuna,“ segir hún enn fremur.

Að hennar mati er skóli án aðgreiningar því ekki að virka sem skyldi eins og staðan er í dag. „Hugmyndafræðin er mjög falleg á blaði. Það væri alveg draumur ef við gætum verið inngildandi og tekið þessa stefnu. Það væri frábært en það þarf að breyta því sem ég hef nefnt áður ef það á að vera hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert