Kristín Ingveldur Valdimarsdóttir fagnaði 105 ára afmæli sínu á föstudag, í gær var svo haldið upp á áfangann með pítsuveislu.
Ingveldur, eins og hún er best þekkt, er nú þriðji elsti núlifandi Íslendingurinn og er enn í banastuði að sögn dóttur hennar, Sigurlínar Jóhannesdóttur.
„Hún er eldhress og hélt bara upp á pítsapartí í tilefni dagsins," segir Sigurlína í samtali við mbl.is.
Hún segir það skrýtið að sjá þennan gríðarstóra hóp koma saman til að fagna afmæli Ingveldar.
„Við erum nú orðin 35 með börnum, barnabörnum, langaömmubörnum og mökum," segir hún.
Ingveldur rifjaði upp æskuárin í viðtali við Morgunblaðið á 100 ára afmæli sínu. Hún sagði frá því þegar hún var aðeins 11 og 12 ára gömul í sveit í Guðlaugsvík við Hrútafjörð.
Fjölskyldan flutti svo seinna í íbúð á Melhaga í Reykjavík sem Ingveldur lýsti sem algerri paradís.
Síðar kynntist hún eiginmanni sínum, Jóhannesi Ingibirni Ólafssyni, forstjóra Dósagerðarinnar. Þau ferðuðust mikið, bæði innanlands og erlendis, og minnist hún sérstaklega ferðar um Gæsavatnsleið árið 1973, ári áður en hringvegurinn var opnaður.
Einnig átti hún góðar stundir í Hrútafirði þar sem þau hjónin höfðu Bakká á leigu um árabil og segist hún hafa notið þess mest að vera úti í náttúrunni.
Mikið líf og fjör var í veislunni í gær sem fór fram á heimili dóttur Ingveldar.