Skilgreina á Landhelgisgæsluna sem hernaðarlega stofnun. Borgaralegir starfsmenn öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli sem sinna þar verkefnum sem hermenn sinna í öðrum ríkjum geta talist lögmæt skotmörk í hernaði.
Þetta segir Dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst, í erindi sínu um varnartengd verkefni íslenskra löggæslustofnana á áttundu ráðstefnu Háskólans á Akureyri um löggæslu og samfélagið en þema ráðstefnunnar í ár er spennulækkun.
Bjarni segir öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli í raun vera íslenska herstöð sem starfrækt sé af íslenska ríkinu. Borgaralegir starfsmenn sem sinni þar verkefnum sem hermenn sinni annars staðar beri stöðueinkenni í samræmi við einkennakerfi NATO-herja. Þannig séu yfirgnæfandi líkur á að umræddir starfsmenn og starfsstöðvar þeirra teljist lögmæt skotmörk í hernaði.
Bjarni segir mikilvægt að aðgreina óbreytta borgara frá þeim sem sinni hernaðarlegum verkefnum og borgaralega innviði frá hernaðarlegum.
Í erindi sínu bendir hann á að í 48. gr. I. viðauka við Genfarsamningana á sviði mannúðarréttar frá 1949, sem Ísland er aðili að, segi að til þess að tryggja virðingu og vernd óbreyttra borgara skuli aðilar samninganna ætíð aðgreina milli óbreyttra borgara og hermanna og milli borgaralegra og hernaðarlegra innviða. Aðilar skuli þá eingöngu beita sér þegar það á við gegn hernaðarlegum innviðum.
Þá segi í þriðja tölulið 51. gr. að óbreyttir borgarar skuli njóta verndar nema þeir taki beinan þátt í átökum.
48. gr. I. viðauka frá 1977 við Genfarsamningana frá 1949 á sviði mannúðarréttar:
In order to ensure respect for and protection of the civilian population and civilian objects, the Parties to the conflict shall at all times distinguish between the civilian population and combatants and between civilian objects and military objectives and accordingly shall direct their operations only against military objectives.
51. gr.
3. Civilians shall enjoy the protection afforded by this Section, unless and for such time as they take a direct part in hostilities.
Bjarni segir umrædda starfsmenn flokkast sem hermenn eða „combatants“ án þess að vera í formlegum her. Því sé eðlilegt framhald á sviði öryggis- og varnarmála að Landhelgisgæslan sé skilgreind sem hernaðarleg stofnun til að mæta kröfum alþjóðlegs mannúðarréttar um aðgreiningu hins borgaralega og hernaðarlega.
Bendir hann á fáránleika þess að framkvæmd Landhelgisgæslu Íslands á varnartengdum rekstrarverkefnum í umboði utanríkisráðuneytisins sé ekki skilgreind í lögum heldur í þjónustusamningi.
Þar sé rekstur íslenska loftvarnarkerfisins, fjarskiptastöðva og ratsjárstöðva NATO hér á landi skilgreindur sem verkefni Landhelgisgæslunnar sem og undirbúningur og framkvæmd á samræmdu loftrýmiseftirliti og -gæslu NATO.
Þá leggi Landhelgisgæslan til séraðgerða- og sprengjueyðingardeild sem sjái m.a. um umsýslu, ráðgjöf og vernd vopna og skotfæra, eyðingu skotfæra og tryggi vernd vopnaðra loftfara samkvæmt stöðlum NATO. Séraðgerða- og sprengjueyðingardeildin annist þá rekstur vopnageymslu NATO á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli samkvæmt þjónustusamningnum.
Í samtali við mbl.is að loknu erindi sínu segir Bjarni að þó að aðgreiningarskyldan eigi fyrst og fremst við á stríðstímum sé ekki hægt að bíða með að framfylgja henni þangað til. Það sé ekki hægt að gera þessa aðgreiningu þegar brostið sé á stríð.
Gallinn í íslenskri löggjöf um öryggis- og varnarmál sé að sú litla löggjöf sem fjalli um varnarmál geri ráð fyrir friðartímum. Það sé ekki gert ráð fyrir stríðstímum.
Eðlilegt væri að í stjórnarskrá kæmi fram hver hafi völdin á stríðstímum og hvernig eigi að taka ákvarðanir. Eins að skýrar reglur séu um skerðingu réttinda, m.a. mannréttinda. Segir hann að afar óþægilegt hafi þótt að ræða þau mál.
„Flest ríki eru bara með her og skipulagningin er þannig. Mér fyndist mjög skrýtið ef Ísland færi einhverja aðra leið. Þetta er eins og ætla að fara að skipuleggja heilbrigðiskerfi og vera ekki með sjúkrahús sem þungamiðjuna heldur setja allt á heilsugæsluna,“ segir Bjarni.
Hann segir heri ekki eiga að vera innan um óbreytta borgara en vissulega séu fjölmörg grá svæði.
„Svo eru þessar „hybrid-sveitir“ eins og í Frakklandi þar sem ákveðnar deildir sinna löggæslu en geta svissað yfir og verið með hernaðarlegt hlutverk,“ segir Bjarni og vísar þar til Gendarmerie eða frönsku herlögreglunnar.
Telur hann þá leið vera skynsamlega fyrir Ísland. Mjög kostnaðarsamt sé að stofna her og það þurfi einhvers staðar einhvern veginn að fella starfsemina, og svo væntanlega aukna starfsemi, inn í einhvern lagaramma.
Bjarni segir núverandi ástand torvelda samskipti við samstarfsaðila Íslands af því að gert sé ráð fyrir að samskipti fari milli herja.
„Það er ákveðið samfélag og okkur vantar eðlilegar samskiptaleiðir.“
Er einhver umræða farin af stað í stjórnkerfinu um þessa aðgreiningu?
„Ég ætla að segja að maður heyri kannski ekki neitt af þessu af því að þetta gerist fyrir luktum dyrum en ekki opinberlega.
Það er líka svo erfitt fyrir pólitík að segja bara að nú þurfi að stofna her. Það verður bara hrap í skoðanakönnunum.“
Í erindi sínu benti Bjarni þó á að í inntaki og áherslum stefnu í varnar- og öryggismálum, skýrslu samráðshóps þingmanna frá þessu ári, segi að þótt öryggisáskoranir samtímans geri skilin milli borgaralegra og hernaðarlegra viðfangsefna óljós sé mikilvægt að huga að þeim aðskilnaði við skipulag og framkvæmd án þess að trufla samvinnu og upplýsingaskipti stofnana sem starfa að öryggis- og varnarmálum í víðu samhengi.
Þá sé í ljósi þessa og vegna aukinnar öryggisógnar og spennu á alþjóðavettvangi nauðsynlegt að endurskoða varnarmálalöggjöfina til að hún endurspegli betur þann veruleika sem Ísland standi andspænis á vettvangi öryggis- og varnarmála.
Bjarni segir mikilvægt að framfylgja aðgreiningarskyldunni til að verja óbreytta borgara og að þeir verði ekki í víglínu hugsanlegra átaka. Þess vegna séu hermenn t.d. skýrlega aðgreindir í herbúningum og þess vegna séu hernaðarleg mannvirki vanalega byggð fjarri mannabyggðum.
En eins og segir í lokaorðum Bjarna í erindi hans á ráðstefnunni myndi það stuðla að betri aðlögun að grundvallarreglum alþjóðlegs mannúðarréttar, einkum þeim sem lúta að aðgreiningu þess borgaralega og hernaðarlega, ef Landhelgisgæslan yrði skilgreind sem hernaðarleg stofnun.
„Ef einhver er í vafa um það sem ég er að segja, tala ég fyrir því að íslenska ríkið geri eins og nær öll önnur ríki í veröldinni. Það skipuleggi sín öryggis- og varnarmál út frá því að þungamiðjan í vörnum íslenska ríkisins sé ríkisstofnun sem nefnist her.
Annað er að mínu mati óskynsamlegt og jafnvel ósiðlegt. Það er ósiðlegt að gera ekki greinarmun á hernaðarlegum og borgaralegum þáttum samfélagsins,“ segir Bjarni.