Sú saga er þekkt að síðasta geirfuglaparið í heiminum var drepið í Eldey í júní árið 1844 fyrir danska kaupmenn. Lengi vel var ekki vitað hvar hamir þessara fugla væru niðurkomnir en árið 2017 var staðfest með erfðafræðirannsóknum að hamur karlfuglsins er á náttúrugripasafni í Brussel í Belgíu. Nú segjast vísindamenn hafa sannreynt, einnig með erfðafræðirannsóknum, að hamur kvenfuglsins er á náttúrugripasafni í borginni Cincinnati í Ohio í Bandaríkjunum.
Fuglarnir tveir voru fláðir hér og hamirnir og hluti innyflanna flutt til Kaupmannahafnar þar sem hamirnir voru stoppaðir upp. Innyflin eru enn í vörslu náttúrugripasafnsins í Kaupmannahöfn en lengi var ekki vitað með vissu hvar hamirnir væru.
Í nýrri grein í breska tímaritinu Zoological Journal of the Linnean Society er fjallað um leitina að kvenfuglinum en aðalhöfundur greinarinnar er breski erfðafræðingurinn Jessica Thomas, sem einnig fann karlfuglinn í safninu í Brussel á sínum tíma. Í greininni kemur fram að talið hafi verið að hamur kvenfuglsins væri í safni í Los Angeles í Kaliforníu en erfðaefnisrannsóknir, sem gerðar voru 2017, afsönnuðu það.
Þá beindist athyglin að uppstoppuðum geirfugli í Cincinnati. Sá hafði um tíma, eins og geirfuglinn í Los Angeles, verið í eigu manns að nafni George Dawson Rowley sem var kunnur breskur fuglafræðiáhugamaður á 19. öld. Eftir að hann lést árið 1878 erfði sonur hans, Fydell Rowley, geirfuglasafn hans og geymdi það á heimili sínu í Brighton á Englandi þar til það var selt á uppboði hjá fyrirtækinu Stevens’s Auction Rooms Ltd. í nóvember 1934.
Velski höfuðsmaðurinn Vivian Hewitt, sem fyrstur flaug flugvél milli Írlands og Bretlands, keypti fuglana á uppboðinu en hann átti mikið safn uppstoppaðra fugla og eggja. Eftir dauða hans árið 1965 var safnið boðið upp. Þar á meðal voru fjórir uppstoppaðir geirfuglar sem nú eru í söfnum í Birmingham, Cardiff, Cincinnati og Los Angeles.
Fræðimenn, sem röktu oft á tíðum flókna eigendasögu geirfugla, töldu lengi vel að Eldeyjarkvenfuglinn hefði farið á safnið í Los Angeles en þegar erfðafræðirannsóknir afsönnuðu þá kenningu bárust böndin að geirfuglinum sem endaði í Cincinnati. Í greininni segir að erfðaefni í sýni úr ham geirfuglsins í Cincinnati hafi verið borið saman við erfðaefni í sýni úr innyflunum í Kaupmannahöfn og þau reyndust passa saman. Í greininni er rakið hvernig stóð á því að uppboðshaldararnir rugluðu saman fuglunum tveimur sem fóru til Ameríku.
Gísli Pálsson prófessor emeritus, sem hefur skrifað bók um geirfuglinn, hefur fylgst með rannsóknum Jessicu Thomas og verið í samskiptum við hana vegna sameiginlegs áhugamáls þeirra, geirfuglsins. Hann segir hana hafa lokið doktorsprófi í erfðafræði frá háskólanum í Bangor í Wales og Kaupmannahafnarháskóla og ritgerð hennar fjallaði um erfðamengi geirfuglsins.
Gísli segir Thomas hafa sýnt fram á að breytileiki erfðaefnis geirfugla var töluverður og það auðveldaði vísindamönnum vinnuna við að para saman sýnin úr innyflunum og hömunum.
Thomas tókst með erfðafræðirannsóknum að finna ham síðasta karlfuglsins árið 2017. Hún var þá að vinna með fuglafræðingum, þar á meðal Errol Fuller sem hefur lengi rannsakað afdrif þekktra uppstoppaðra geirfugla. Niðurstaða þeirrar vinnu var að fuglar í fimm náttúrugripasöfnum komu til greina: Í Bremen, Brussel, Kiel, Los Angeles og Oldenburg. Erfðaefni fuglsins í Brussel reyndist síðan vera það sama og erfðaefni innyflanna í Kaupmannahöfn.
Í kjölfarið hófu þau leit að kvenfuglinum sem nú hefur leitt til áðurgreindrar niðurstöðu.
Í lok vísindagreinarinnar segja höfundarnir að rannsóknin sem þar er lýst leysi náttúruvísindaráðgátu sem hafi vafist fyrir fræðimönnum og safnafólki í 180 ár. Geirfuglaparið sem drepið var í Eldey í júní 1844 sé táknrænt og afdrif fuglanna skipti því miklu máli þegar sagan um útdauða geirfuglsins sé skráð.
Með því að leysa ráðgátuna um hvar fuglarnir eru niðurkomnir sé ekki aðeins varpað ljósi á nytsemi þess að nota fornt erfðaefni til að komast að niðurstöðum af þessu tagi heldur setji það einnig punktinn aftan við söguna um hvernig geirfuglinn dó út.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
