Íslenski stærðfræðingurinn Björn Birnir er einn helsti sérfræðingur heims um ókyrrð í lofti en Björn var í viðtali hjá bandaríska dagblaðinu New York Times nú á dögunum þar sem hann ræddi rannsóknir sínar á fyrirbærinu.
Björn er prófessor í stærðfræði við Kaliforníuháskólann í Santa Barbara í Bandaríkjunum en hann hefur þróað ný og nákvæm spálíkön sem geta að hans sögn hjálpað verkfræðingum við að auka öryggi flugsamgangna.
Rannsóknir sýna að alvarleg tilvik ókyrrðar í lofti hafa aukist um meira en helming á síðustu áratugum, líklega vegna hlýnunar lofthjúpsins. Farþegaflug er þó enn mjög öruggt og alvarleg slys á fólki afar fátíð.
„Ég hef oft hugsað hve yndislegt það væri ef við gætum gert flugsamgöngur aðeins þægilegri og öruggari, ég tel að flugvélahönnun muni njóta góðs af þessu líkani mínu,“ segir Björn í samtali sínu við New York Times.
Ókyrrð í lofti, sem Björn kallar reyndar straumiðu, hefur lengi verið áskorun fyrir vísindamenn en á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í skilningi á því hvernig hún virkar.
Richard Feynman, Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði, sagði eitt sinn að ókyrrð í lofti væri stærsta óleysta vandamál eðlisfræðinnar enda orsakist hún af mörgum ólíkum þáttum, eins og þrýstingi, hita og vindi.
Líkanið, sem Björn þróaði ásamt Luizu Angheluta, prófessor við Oslóarháskóla, er talið eitt það þróaðasta sem fram hefur komið á þessu sviði og auki verulega skilning á því hvað valdi ókyrrðinni.
Líkanið sameinar tvær ólíkar spáaðferðir, annars vegar svokallað Lagrangian-aðferð, þar sem fylgst er með einstökum ögnum á hreyfinu, og hins vegar Eulerian-aðferð, þar sem horft er á punkt í rúmi og straumurinn skoðaður í kringum hann.
Í seinasta mánuði olli ókyrrð í flugi flugfélagsins Delta því að 25 farþegar voru fluttir á sjúkrahús. Björn telur að ef flugmenn vélarinnar hefðu haft aðgang að líkaninu hefði mögulega verið hægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða sem hefðu forðað vélinni frá ókyrrðinni.
Thomas Carney, prófessor emeritus í flugtækni við Purdue-háskóla í Bandaríkjunum, segir rannsóknir Björn vera handan síns eigin skilnings. Hann segist fullviss um að rannsóknir Björns bæti við þekkingu mannkyns.