Morgunblaðið hefur undanfarið fjallað um óeðlilega gjaldskrá Íslandspósts (ÍSP), þar sem undirverðlagning fyrirtækisins hefur um árabil grafið undan samkeppni á póstmarkaði. Ástæða er til þess að rifja upp í því samhengi atburðarás í tengslum við gjaldskrárákvörðun sem átti sér stað hér fyrir fáeinum árum, ekki síst vegna þess að hún varpar ljósi á þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í þessum efnum, ekki aðeins af hálfu ÍSP, heldur einnig eftirlitsaðila á póstmarkaði og fjármálaráðuneytisins sem fer með eignarhald ÍSP.
Póstlög kveða á um að verð vegna alþjónustu, þ.e. þeirrar lágmarkspóstþjónustu sem ÍSP ber að veita, skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Þessu ákvæði er ekki síst ætlað að koma í veg fyrir undirverðlagningu sem raskað getur samkeppni.
Þrátt fyrir hið skýra lagaákvæði var gjaldskrá ÍSP vegna pakkasendinga utan höfuðborgarsvæðisins lækkuð um allt að 40% þann 1. janúar 2020 án þess að sú ákvörðun væri tekin af stjórn félagsins líkt og samþykktir félagsins kveða skýrt á um.
Ákvörðunin um svo umfangsmikla lækkun er ekki síst athyglisverð í ljósi þess að áður en ákvörðunin var tekin stóð verð pakkasendinga ekki undir raunkostnaði, en árið áður var um hálfur milljarður í tap af þjónustunni. Því mátti ljóst vera að svo umfangsmikil lækkun væri til þess fallin að raska samkeppni á póstmarkaði verulega.
Verðlækkunin færði ÍSP enn fremur á þriðja hundrað milljóna króna úr ríkisjóði vegna áranna 2020 og 2021, þar sem ríkissjóður bætir félaginu hreinan kostnað af alþjónustu á skilgreindum „óvirkum“ markaðssvæðum. Óvirk markaðssvæði eiga að vera þau svæði þar sem ekki eru markaðsforsendur til þess að veita póstþjónustu, en þrátt fyrir það var virk samkeppni víða á skilgreindum „óvirkum“ svæðum.
Þótt enginn hafi opinberlega viljað gangast við ákvörðuninni sem tekin var fram hjá stjórn ÍSP, þá sýna gögn fram á að núverandi forstjóri fyrirtækisins, Þórhildur Ólöf Helgadóttir, sem þá var fjármálastjóri, átti hlut að máli en hún átti í samskiptum við eftirlitsaðila póstþjónustu í tengslum við ákvörðunina.
Gjaldskrárlækkunin hefur verið rakin til þess að innleitt var tiltekið Evrópuákvæði í íslensk póstlög sem kveður á um sama verð um allt land á pakkaþjónustu. Var sú ákvörðun tekin að miða hið samræmda verð við verð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það var lægst, en horfa fram hjá ákvæði sömu laga sem kveður á um að miða skuli verð við raunkostnað að viðbættum hæfilegum hagnaði.
Fyrir liggur að í aðdraganda ákvörðunarinnar, þann 15. nóvember 2019, funduðu Bjarni Jónsson, þáverandi stjórnarformaður Íslandspósts, Auður Björk Guðmundsdóttir, þáverandi varaformaður stjórnar, og Birgir Jónsson þáverandi forstjóri með Katrínu Jakobsdóttur þáverandi forsætisráðherra og Bjarna Benediktssyni þáverandi fjármálaráðherra. Á fundinum fóru þau þess á leit við ráðherrana að ríkissjóður fjármagnaði taprekstur ÍSP í auknum mæli. Í fundargerð stjórnar ÍSP eftir fundinn með ráðherrunum kemur fram að þeir hafi sýnt mikla „velvild“ í garð Íslandspósts á fundinum.
Í kjölfar fundarins vann fjármálaráðuneytið minnisblað til fjárlaganefndar Alþingis, dagsett 11. desember 2019. Þar kemur fyrst fram sú undarlega lögskýring sem Íslandspóstur byggði á við gjaldskrárákvörðun sína, að ákvæðið um sama verð um allt land á pökkum myndi hafa þau áhrif að verð á höfuðborgarsvæðinu, þar sem samkeppni yrði mest, muni ráða verði um allt land, óháð kostnaði Íslandspósts við dreifingu á hinum ýmsu stöðum.
Horfði ráðuneytið þar fram hjá áðurnefndu ákvæði sömu laga um að gjaldskrá fyrir alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði.
Fimm dögum síðar, þann 16. des-
ember 2019, sendi ÍSP tilkynningu til eftirlitsaðilans, þá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS), ákvörðun um gjaldskrárlækkunina, án nokkurs rökstuðnings, þrátt fyrir að skýrt sé
kveðið á um það í póstlögum að gjald-
skrárbreytingar skuli rökstuddar.
Í tilkynningunni til PFS segir: „Pakkar innanlands hækka um 3% og svo breytast verðin á 1-10 kg. Þannig að það verður sama verð á öllum svæðum.“ Ekki var tilgreint að miða ætti verð um allt land við höfuðborgarsvæðið og að það fæli í sér allt að 40% lækkun á verði sem þá þegar var langt frá því að standa undir raunkostnaði og hvað þá meir, eins og lög gera ráð fyrir.
Viku síðar sendi stofnunin ÍSP bréf stílað á Þórhildi Ólöfu, þá fjármálastjóra, nú forstjóra. Í bréfinu er vísað til þeirra ákvæða sem um gjaldskrá ÍSP vegna alþjónustu gilda, m.a. ákvæðið sem kveður á um að hún skuli taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Í bréfinu er vísað til þess að enginn rökstuðningur hafi fylgt tilkynningunni. Bréfið undirritar lögfræðingur PFS, Friðrik Pétursson.
ÍSP svaraði beiðni stofnunarinnar þann 22. janúar 2020 en athygli vekur að í bréfinu er enn engan rökstuðning fyrir gjaldskrárlækkuninni að finna. Áfram er talað um 3% hækkun á pökkum innanlands og að sama gjaldskrá skuli vera um allt land. Í bréfinu er þó tiltekið að gjaldskráin miðist við svæði 1, sem er höfuðborgarsvæðið. Vísað er til þess að með hækkuninni sé brugðist við hækkun vísitölu neysluverðs.
Í kjölfar svarsins sendi PSF annað bréf, dagsett 4. febrúar 2020, þar sem farið er fram á endurskoðun gjaldskrárinnar og tiltekið að sú endurskoðun geti ekki beðið til loka ársins. Það er m.a. rökstutt þannig að „að mati PFS þarf Íslandspóstur að sýna fram á að verðlagning fyrirtækisins hverju sinni taki mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Á þetta sérstaklega við um kröfuna um sömu gjaldskrá um allt land þar sem ÍSP kýs að miða verðlagningu á landinu öllu við gildandi verð á svæði 1, þ.e. vegna svæða 2, 3 og 4 sem orsakar samsvarandi tekjutap á pökkum innanlands að óbreyttu.“
Í stöðuskjali PFS dagsettu degi síðar kemur fram að stofnunin taki enga afstöðu til þess hvort gjaldskrá Íslandspósts innan alþjónustu sé í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.
Þann 7. desember 2020 fundaði stjórn ÍSP og bókaði í fundargerð með undirritun allra stjórnarmanna að gjaldskrárákvörðunin hefði ekki verið borin undir stjórn og staðfest í fundargerð í samræmi við samþykktir félagsins. Í bókuninni er þáverandi forstjóri félagsins Birgir Jónsson sagður bera fulla ábyrgð á ákvörðuninni. Rétt er að geta þess að Birgir Jónsson vísaði ásökun stjórnar opinberlega á bug.
Þann 18. desember 2020 kom stjórn saman á ný og varpar fundargerð þess fundar ljósi á klofning í stjórn vegna málsins. Tveir stjórnarmenn, Thomas Möller og Eiríkur H. Hauksson, lögðu fram ítarlega bókun vegna málsins, þar sem fram kemur að gjaldskrárlækkunin hafi leitt til mjög mikils tekjutaps hjá ÍSP á árinu og valdið röskun á samkeppnisstöðu einkarekinna fyrirtækja.
Stjórnarmennirnir lýsa í bókuninni þeirri skoðun sinni að gjaldskráin sé niðurgreidd ríkisstarfsemi og aðför að starfsemi þeirra fyrirtækja á landsbyggðinni sem boðið hafa sambærilega þjónustu árum saman í flutningum og verslun. Með lækkuninni hafi ÍSP ekki farið að ákvæðum laga um að gjald taki mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. Stjórnarmennirnir telja einsýnt að gjaldskráin sé andstæð lögum um póstþjónustu, auk þess sem um ólögmæta undirverðlagningu sé að ræða í skilningi laga.
Aðrir stjórnarmenn, formaður og varaformaður stjórnar – áðurnefnd Bjarni og Auður Björk – ásamt Jónínu Björk Óskarsdóttur, bókuðu aftur á móti að með gjaldskrárbreytingunni hefði verið brugðist á lögmætan hátt við ákvæði póstlaga um að sama gjaldskrá gildi um allt land.
Sú vending varð á málinu að afstaða PFS í málinu breyttist skyndilega í ákvörðun sem stofnunin birti 16. febrúar 2021. Í ákvörðuninni lítur stofnunin alfarið framhjá ákvæði laga um að gjald innan alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði, en hvergi er minnst á ákvæðið í ákvörðuninni og áður lýstar áhyggjur af því er hvergi að finna. Hvað þá skýringar á því hvers vegna þær eru ekki lengur til staðar.
Ákvörðunin er undirrituð af sama lögfræðingi PFS og hafði áður gert athugasemdir við gjaldskrárákvörðunina, fyrrnefndum Friðriki Péturssyni. Rétt er að geta þess að hann var ekki löngu síðar ráðinn til starfa hjá Íslandspósti.
Æ síðan hefur eftirlitsaðili á póstmarkaði, sem áður var PFS og er í dag Byggðastofnun, í ákvörðunum sínum litið fram hjá ákvæði laga um að gjald innan alþjónustu skuli taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði, með þeim afleiðingum að undirverðlagning ÍSP hefur viðgengist um árabil í skjóli eftirlitsaðilans og með þöglu samþykki stjórnvalda, þrátt fyrir virka samkeppni. Reikningurinn er svo að sjálfsögðu sendur á skattgreiðendur.