Byrjað er að rífa byggingar á lóðinni 34-36 við Borgartún. Þær hafa verið í niðurníðslu og sett ljótan blett á umhverfið.
Sótt hefur verið um leyfi til að byggja á lóðinni steinsteypt fjölbýlishús á 4-8 hæðum með verslunar- og þjónusturýmum á vesturhluta jarðhæðar, bílakjallara með 80 stæðum og 100 íbúðum á efri hæðum.
Byggingarfulltrúi Reykjavíkur veitti í sumar leyfi fyrir niðurrifi bygginganna þriggja á lóðinni.
Um er að ræða verkstæði/gistiheimili, 1.712 fermetrar (fm), verkstæði, 528 fm, og iðnaðarhús, 902 fm. Samtals eru þetta 3.142 fermetrar.
Í húsakönnun Borgarsögusafnsins, sem gefin var út 2017, kemur fram að húsin á lóðinni Borgartúni 34-36 voru reist á árunum 1958-1978.
Húsin voru byggð til að hýsa atvinnustarfsemi sem tengdist vélum og bifreiðum og eru öll steinsteypt.
Á lóðinni Borgartúni 34 stendur einlyft verkstæðisbygging með skáburstaþaki sem reist var 1958. Einnig fjögurra hæða bygging sem reist var árið 1978 og hýsti verkstæði, skrifstofur og gistiheimili, ásamt bílskýli í norðvesturhorni lóðarinnar sem reist var um sama leyti.
Borgartún 36 var reist árið 1964 og hýsti upphaflega Vélsmiðju Ögmundar Jónassonar.
Kristinn Sveinbjörnsson byggingafræðingur teiknaði stærstu bygginguna og sömuleiðis bílskýli.
Húsin hafa lítið breyst í gegnum tíðina og eru mjög upprunaleg að gerð, segir í húsakönnuninni.
Í þessum byggingum var aðsetur fólksflutninga- og ferðaskrifstofufyrirtækisins Guðmundar Jónassonar hf.
Það var kennt við stofnandann Guðmund, sem stofnaði fyrirtækið árið 1931. Guðmundur var frumkvöðull í rútubílarekstri um og fyrir miðja síðustu öld. Hann var brautryðjandi í hálendisferðum.
Guðmundur lést 1985 og tóku börn hans þá við rekstri fyrirtækisins. Guðmundur Jónasson (GJ Travel) er nú með rekstur við Vesturvör í Kópavogi.
Þegar unnið er deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skal lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir eru, með gerð húsakönnunar.
Í fyrrnefndri húsakönnun kemur fram að þar sem í dag eru lóðirnar Borgartún 29-36 var áður tún hjáleigunnar Fúlutjarnar eða Lækjarbakka.
Þessi jarðarskiki var byggður úr jörðinni Rauðará en landamerki á milli Laugarness og Rauðarár lágu um Fúlutjarnarlæk, sem rann að mestu vestan við núverandi Kringlumýrarbraut.
Lækurinn var afrennsli frá Kirkjumýri og Kringlumýri og dró nafn sitt af Fúlutjörn, sem var hálfgert sjávarlón sunnan við Kirkjusand og lyktaði af rotnandi gróðri. Fúlutjarnarlækur var settur í stokk árið 1957 og um 1960 hafði verið fyllt upp í Fúlutjörn og hvorugt er því sýnilegt lengur.
Íbúðarhúsið á Fúlutjörn stóð þar sem í dag er Borgartún 32. Austurendi hússins var reistur árið 1900 og hýsti hesthús og hlöðu en vestari endinn var íbúðarhús byggt 1906. Seinna var byggð viðbygging norðan við húsið. Húsið Fúlatjörn/Lækjarbakki var rifið um 1970.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
