Íslenska hönnunarfyrirtækið Valka design hefur sakað sænsku fataverslunarkeðjuna Weekday um að stela hönnun fyrirtækisins.
Salka Þorra Svanhvítardóttir Holm, forsprakki Valka design, vakti athygli á málinu á Instagram-síðu fyrirtækisins.
„Þetta var mjög sjokkerandi fyrst og ég vissi ekki alveg hvernig mér ætti að líða,“ segir Salka í samtali við mbl.is.
Hönnunin umrædda er hin svokallaða „Mél-taska“ sem Salka hannaði og selur nú í gegnum Völku design.
„Það er mjög svekkjandi að vera að vinna að einhverju og leggja sig fram í marga mánuði og svo er það bara fjöldaframleitt án leyfis,“ bætir hún við.
Salka segist enn vera að vega og meta næstu skref en hún vill vekja athygli á málinu.
Hún segir það hafa komið verulega á óvart að stórfyrirtæki á borð við Weekday sé að stela hönnun upprennandi fatahönnuða.
„Þegar ég fékk hugmyndina að töskunni leitaði ég lengi eftir svipuðum hönnunum á netinu til að vera viss að ég væri ekki að stela annarra manna hönnun,“ segir hún.
Hún segir það liggja í augum uppi að hönnun Weekday sé eftirlíking af töskum Völku design.
„Maður leggur svo ótrúlega mikla vinnu, orku og ást í eitthvað sem maður er að gera og svo geta þessi fyrirtæki svo auðveldlega stolið því án afleiðinga,“ segir Salka.
Hún lætur bakslagið þó ekki stoppa sig og segist munu halda áfram sama hvað.